Undanþágur vélstjóra

Í undantekningartilfellum og þegar menn með tilskilin réttindi vantar til starfa getur undanþágunefnd veitt tilteknum manni undanþágu til að gegna stöðu á tilteknu skipi í allt að 6 mánuði hafi hann ekki tilskilin réttindi, enda telji hún að öryggi mannslífa, eigna eða umhverfis verði ekki stefnt í hættu og að viðkomandi sé hæfur til að annast starfið á öruggan hátt. Undanþágu má aðeins veita þeim sem hefur skírteini til að gegna næstu lægri stöðu eða uppfyllir kröfur reglugerðar um undanþágur. Ef ekki er krafist skírteinis í næstu lægri stöðu má veita þeim undanþágu sem að mati undanþágunefndar hefur næga þekkingu og reynslu. Undanþágu má ekki veita til að gegna stöðu skipstjóra eða yfirvélstjóra nema í neyðartilvikum og þá aðeins í eins skamman tíma og unnt er.

Undanþágur veitir fimm manna nefnd sem samgönguráðherra skipar til að fjalla um þess háttar mál. Í nefndinni eiga sæti tveir fulltrúar tilnefndir af fulltrúum útgerðaraðila, einn fulltrúi tilnefndur af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og einn fulltrúi tilnefndur af Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, en formann nefndarinnar skipar ráðherra án tilnefningar. Ráðherra setur nefndinni starfsreglur sem hann lætur birta með fullnægjandi hætti.

Sjá nýjustu afgreiðslur undanþágunefndar

Sjá ársskýrslu undanþágunefndar árið 2021

starfsreglur undanþágunefndar
Á fundi þann 3. mars 2011 samþykkti undanþágunefnd nýjar starfsreglur, sem fela m.a. í sér að:
  - undanþága er ekki veitt nema auglýst hafi verið eftir réttindamanni
  - sá einn getur fengið undanþágu sem hefur næstu lægri réttindi
  - undanþága er að jafnaði veitt til mánaðar í senn
  - skráning í tilskilið nám og framvinda í námi er skilyrði undanþágu, það á þó ekki við
    um þá sem fæddir eru árið 1960 og fyrr ef þeir hafa fengið a.m.k. tvær undanþágur
    undanfarin 2 ár í stöðuna.
-   ekki er veitt undanþága til starfa á skip, þar sem mönnunarnefnd hefur samþykkt
    frávik frá mönnunarreglum, nema sótt sé um undanþágu í stöðu sem frávikið tekur
    til.

Sjá starfsreglur undanþágunefndar hér