Hefja töku lífeyris

Að hefja töku ellilífeyris

Þegar launafólk fer að nálgast efri ár á vinnumarkaði er ekki úr vegi að viðkomandi kynni sér réttindi sín hjá Lífeyrissjóðum og ríki. Ýmsar spurningar geta vaknað upp sem nauðsynlegt er að leita svara við. Við hvetjum okkar félagsmenn til þess að leita til þess lífeyrissjóðs sem viðkomandi greiddi síðast í til að kynna sér stöðu sína.  Flestir félagsmenn VM greiða til Birtu lífeyrissjóðs eða Gildi lífeyrissjóðs. Starfsfólk sjóðanna svarar öllum fyrirspurnum vegna þeirra sem þangað greiða en jafnframt má finna ýmsar upplýsingar á heimasíðu sjóðanna, www.birta.is, www.gildi.is, þar er meðal annars mögulegt að skrá sig inn á vefsvæði þar sem hægt er að lista upp réttindi viðkomandi en jafnframt að tengjast lífeyrisgátt lífeyrissjóðanna.

Sveigjanlegt upphaf

Fullur lífeyrisréttur miðast við 67 ára eftirlaunaaldur. Heimilt er að hefja töku eftirlauna við 60 ára aldur eða fresta töku þeirra til 72 ára aldurs. Sé töku eftirlauna flýtt lækka mánaðarlegar greiðslur en hækka ef töku þeirra er seinkað. Eftirlaunalífeyrir er greiddur til æviloka.

Úttekt valkvæðs séreignarsparnaðar eða tilgreindrar séreignar getur skipt miklu máli þegar upphaf eftirlauna er skipulagt og það er góð regla að fara yfir málið með ráðgjafa.

Umsóknarferli

Skila þarf inn umsókn um að hefja töku eftirlauna í síðasta lagi 20. þess mánaðar sem taka þeirra á að hefjast.

Flestir eiga lífeyrisréttindi í fleiri en einum sjóði. Ekki er heimilt að flytja almenn lífeyrisréttindi á milli lífeyrissjóða. Þegar kemur að töku eftirlauna sér sá sjóður sem síðast var greitt til um að senda umsókn um eftirlaun til annarra lífeyrissjóða.

Í lífeyrisgáttinni er hægt að finna upplýsingar um lífeyrisréttindi í öðrum sjóðum, að undanskildum séreignarsparnaði.

Umsækjandi þarf jafnframt að sækja um hjá Tryggingastofnun (TR). TR krefst þess að búið sé að sækja um hjá lífeyrissjóði áður en til greiðslu kemur frá TR. Á umsóknareyðublað hjá lífeyrissjóði þarf að merkja við hvort óskað sé eftir því að viðkomandi lífeyrissjóður sendi staðfestingu til TR á því að sótt hafi verið um hjá lífeyrissjóði. Við hvetjum félagsmenn til þess að kynna sér málin hjá TR á vef þeirra, www.tryggingastofnun.is.

Hafi viðkomandi greitt í séreignarsjóð á starfsævinni þá getur launamaður hafið töku séreignarsparnaðar eftir að 60 ára aldri er náð. Viðkomandi getur ákveðið hvort hann dreifir séreigninni á ákveðinn árafjölda eða skammtað sér ákveðna upphæð á mánuði þar til séreign er uppurin.

Skipting réttinda

Lífeyrisréttindi eru persónubundin og því er óheimilt að framselja þau. Samkvæmt heimild í lögum geta sjóðfélagi og maki hans þó gert með sér samkomulag um skiptingu eftirlaunaréttinda.

Samkomulag um skiptingu áunninna réttinda skal vera skriflegt og eiga sér stað áður en taka eftirlauna hefst og ekki seinna en fyrir 65 ára aldur. Skipting nær til eftirlaunaréttinda á meðan hjúskapur eða óvígð sambúð hefur staðið eða mun standa. Hægt er að skipta allt að helmingi réttinda/iðgjalda og er skiptingin gagnkvæm og varanleg. Um þrjá kosti er að ræða:

1. Skipting greiðslna

Eingöngu er um að ræða skiptingu núverandi eftirlauna á milli maka og skal skiptingin þá vera gagnkvæm og jöfn.

Við fráfall sjóðfélagans falla greiðslur til maka niður. Við fráfall maka fær sjóðfélagi hins vegar greidd full eftirlaun.

2. Skipting þegar áunninna eftirlaunaréttinda

Samkomulag um skiptingu áunninna réttinda skal eiga sér stað áður en taka eftirlauna hefst og eigi síðar en fyrir 65 ára aldur.

Eftir skiptinguna, sem er óafturkallanleg, verða réttindi beggja aðila sjálfstæð og fær hvor aðili greidd eftirlaun til æviloka.

3. Skipting framtíðariðgjalda

Á við um iðgjöld sem greiðast eftir að samkomulagið er gert og þar til hjúskap, sambúð eða samvist er slitið.

Við skiptingu réttinda ber að skila eftirfarandi gögnum til þess lífeyrissjóðs sem síðast var/er greitt til:

Samningi um skiptingu eftirlaunaréttinda.

Sambúðar og/eða hjúskaparvottorði - til staðfestingar á því tímabili sem skipta ber samkvæmt samningi.

Heilbrigðisvottorði - skal fylgja með sé verið að skipta áunnum réttindum.

 

Kynnið ykkur stöðu ykkar hjá lífeyrissjóðum sem og Tryggingastofnun.