Ferilskrá/Lífshlaup/CV

Ferilskrá/lífshlaup/CV

Að koma sér á framfæri á vinnumarkaði er ekkert annað en markaðssetning þar sem ferilskráin er markaðstækið, auglýsingin, kynning á söluvarningnum - ykkur sjálfum.
Með því að vanda sem mest til verka við gerð hennar aukast líkurnar á að komast í
atvinnuviðtal. Mikilvægt er að ferilskrá sé stutt, hnitmiðuð og vel upp sett.

Góð ferilskrá ætti að kynna einstaklinginn, skýra í grófum dráttum frá menntun hans, reynslu og áhugamálum, auk þess að staðfesta ímynd hans.

Góð ferilskrá á að vera afrakstur ítarlegrar heimavinnu þar sem vandað er til verka hvað varðar efnisinnihald, uppsetningu og málfar.

Ferilskrá er dæmi um hvernig einstaklingurinn nálgast viðfangsefnið og kemur því frá sér.

Sérhver ferilskrá er persónubundin og tilgangurinn er að draga fram sem skýrasta mynd af einstaklingnum.

Einkenni góðrar ferilskrár:
 
   Góð ferilskrá er stutt og hnitmiðuð, 1-2 síður.
   Góð ferilská ætti alltaf að taka mið af því starfi sem sótt er um. Leggðu áherslu á þá þætti í
   námi og starfsreynslu sem komið gætu að gagni í því starfi sem sótt er um.
   Góðri ferilskrá ætti að fylgja mynd, helst svarthvít.
   Góð ferilskrá inniheldur helstu persónuupplýsingar, á áberandi stað, svo sem: Nafn,
   kennitölu, heimilisfang, síma og netfang.
   Góð ferilskrá byrjar ávallt á núverandi eða síðasta starfi og nýjasta námi.
   Góð ferilská inniheldur helstu upplýsingar um námsferil; heiti náms, skóla, útskriftarár og 
   gráðu.
   Góð ferilskrá telur til þau námskeið sem gætu skipt máli fyrir tiltekið starf. Þau ætti að
   nefna undir "Menntun" eða "Annað" eftir eðli námskeiða.
   Góð ferilskrá inniheldur helstu upplýsingar um fyrri störf, svo sem; vinnustaður, ár og
   stöðuheiti. Einnig getur verið gott að telja til helstu verkefni og ábyrgð í starf, þannig að
   ráðningaraðilinn geti betur gert sér grein fyrir eðli fyrri starfa og reynslu.

   Þeir sem kjósa að koma markmiðum sínum á framfæri í ferilskrá ættu að setja þau á eftir
   persónulegum upplýsingum í einni til tveimur hnitmiðuðum málsgreinum.

Hvað ber að varast?

   Ferilskráin er of löng.
   Ferilskráin er illa skipulögð og illa upp sett.
   Ferilskráin er fjöldaframleidd.
   Ferilskráin er illa prentuð eða illa ljósrituð - Kaupið frekar prentþjónustu hjá fagmönnum.
   Sendið aldrei ferilskrá og umsókn með faxi.
   Ferilskrá með lélega mynd - Engin mynd er betri en vond mynd.
   Ferilskrá sem bundin hefur verið inn í kápu eða pappír. Innbundnar umsóknir eru ekki
   hentugar fyrir ráðningaraðila. Best er að hefta skjölin saman.
   Ferilskrá með langlokutextum, lélegu málfari, stafsetningar- og ásláttarvillum.
   Ferilskrá þar sem upplýsingum er vísvitandi sleppt. Fallið ekki í þá gryfju að sleppa úr
   upplýsingum í þeirri von að ráðningaraðila yfirsjáist þær.
   Ferilskrá þar sem frjálslega er farið með staðreyndir. Gerið ekki meira úr hlutunum en efni
   standa til og farið vel yfir allar upplýsingar.

Dæmi um mismunandi útfærslur á ferilskrá:

   Ferilskrá / grunnur.

   Ferilskrá fyrir þá sem nýkomnir eru úr skóla.

   Ferilskrá fyrir þá sem hafa einhverja starfsreynslu.

   Ferilskrá fyrir þá sem hafa umtalsverða starfsreynslu.


Gögn þessi eru byggð á bókinni Frá umsókn til atvinnu eftir Jón Birgi Guðmundsson