Um trúnaðarmenn

Trúnaðarmaðurinn er tengiliður starfsfólks við VM og atvinnurekanda. Hlutverk hans er að gæta þess að samningar séu haldnir og lög ekki brotin á starfsfólki. Honum er ætlað að auðvelda samskipti aðila enda skal hann eiga greiða leið að upplýsingum. Hann er því gjarnan ráðgjafi og milligöngumaður í samskiptum á vinnustað.

Fjallað er um verkefni trúnaðarmanna í kjarasamningum og lögum, en einnig byggist hlutverk hans á þeim venjum sem skapast hafa. Trúnaðarmenn vinna að bættum kjörum vinnufélaga sinna, jafnframt því sem þeir eru talsmenn atvinnuöryggis, félagslegs öryggis, skynsamlegra stjórnarhátta á vinnustað og samráðsaðilar vegna breytinga.

Starfsmenn skulu snúa sér til trúnaðarmanns með umkvartanir sínar. Honum er heimilt, í samráði við verkstjóra, að verja tíma til trúnaðarmannsstarfa og skulu laun ekki skerðast af þeim sökum. Trúnaðarmanni er heimilt að yfirfara gögn og vinnuskýrslur varðandi ágreiningsefni og ber honum að fara með þau gögn sem trúnaðarmál.

Góð samskipti trúnaðarmanns, vinnufélaga og stjórnenda á vinnustað eru grundvöllur árangursríks starfs. Nauðsynlegt er að trúnaðarmaður fræði nýliða um helstu reglur og venjur á vinnumarkaði.

Trúnaðarmenn eiga samningsbundinn rétt til að sækja námskeið án launaskerðingar en þurfa að sjálfsögðu að sækja námskeiðin í samráði við yfirmann sinn. 

Ef það er ekki trúnaðarmaður á þínum vinnustað hafðu þá samband við skrifstofu VM og við setjum upp vinnustaðafund til að kjósa trúnaðarmann.

Guðni Gunnarsson heldur utan um trúnaðarmannakerfið.

Um trúnaðarmenn í lögum

Hlutverk trúnaðarmanns, samkvæmt 9. gr.laga um stéttarfélög og vinnudeilur (nr. 80/1938), er að gæta þess að gerðir samningar séu haldnir af atvinnurekanda og fulltrúum hans og að ekki sé gengið á félagslegan eða borgaralegan rétt starfsmanna. Með þessu er átt við öll réttindi samkvæmt lögum eða reglum sem varða persónréttindi, en það eru þau réttindi sem eru svo nátengd andlegu eða líkamlegu lífi manna að þau verða ekki frá því greind. Einnig má atvinnurekandi að sjálfsögðu ekki hrófla við neins konar fjárréttindum starfsmanna. Fjárréttindi er réttur yfir eða til fémæta, það er gæða, sem hafa fjárgildi og er þannig háttað í eðli sínu að þau geta greinst frá eiganda þeirra og gengið manna á milli.
Ýmis réttindi opinbers réttarlegs eðlis eru einnig friðhelg svo sem kosningaréttur og kjörgengi og væri atvinnurekanda allskostar óheimilt að meina starfsmönnum að neyta kosningaréttar eða beita þá þrýstingi í þeim efnum.

Handbók trúnaðarmannsins

Listi yfir trúnarðarmenn

Frekari upplýsingar um trúnaðarmenn má finna á Vinnuréttarvef ASÍ.

Allt um einelti