Reglugerð sjúkrasjóðs


1. gr.   Heiti sjóðsins og aðsetur
   1.1.       Sjóðurinn heitir Styrktar- og sjúkrasjóður Félags vélstjóra og málmtæknimanna 
                (VM).
   1.2.       Sjóðurinn er stofnaður með sameiningu Félags járniðnaðarmanna og 
                 Vélstjórafélags Íslands og sjúkrasjóða þeirra félaga.
   1.3.       Sjóðfélagar eru þeir sem greitt hafa, eða greidd hafa verið fyrir, fullnægjandi 
                iðgjöld til sjóðsins að mati sjóðstjórnar.
   1.4.       Sjóðurinn er eign VM.
   1.5.       Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.
 
2. gr.   Verkefni sjóðsins
   Verkefni sjóðsins eru:
   2.1.       Að greiða dagpeninga þeim sjóðfélögum sem missa vinnutekjur sínar vegna eigin 
                veikinda eða slysa, eða veikinda og/eða slysa maka og barna 18 ára og yngri.
   2.2.       Að greiða dánarbætur vegna andláts sjóðfélaga.
   2.3.       Að styrkja með fjárframlögum sjóðfélaga og hverja þá starfsemi er miðar að 
                endurhæfingu, sérstakri læknismeðferð, slysavörnum eða öðrum sambærilegum 
                verkefnum, eftir ákvörðun sjóðstjórnar hverju sinni.
   2.4.       Að veita tímabundin lán til sjóðfélaga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

3. gr.   Tekjur sjóðsins
   3.1.       Tekjur sjóðsins eru skv. kjarasamningum félagsmanna VM, sbr. 7. gr. laga nr. 
                19/1979, samningsbundin gjöld atvinnurekanda til sjóðsins.
   3.2.       Vaxtatekjur og annar arður.
   3.3.       Gjafir, framlög og styrkir.
   3.4.       Aðrar tekjur.

4. gr.   Stjórn og rekstur sjóðsins
   4.1.       Stjórn sjóðsins skal skipuð 5 mönnum. Formaður félagsins er formaður stjórnar og
                stjórn félagsins skipar einn fulltrúa. Aðalfundur félagsins kýs þrjá fulltrúa og skal 
                kosning fara fram á sama tíma og stjórnarkjör í félaginu.
   4.2.       Stjórnin ber ábyrgð á rekstri og fjárreiðum sjóðsins. Stjórnin skiptir sjálf með sér
                verkum.
   4.3.       Stjórnun sjóðsins skal vera í samræmi við þau sjónarmið sem gilda skv.
                almennum stjórnsýslureglum.
   4.4.       Heimilt er að fela skrifstofu VM fjárreiður og umsjón með sjóðnum. Stjórn sjóðsins
                er heimilt að fela öðrum rekstur fasteigna sinna með skriflegum samningi. Þó skal
                halda bókhaldi sjóðsins aðskildu frá öðrum fjárreiðum VM.
   4.5.       Ávallt skulu liggja fyrir gögn um rétt sjóðfélaga til greiðslu úr sjóðnum.
   4.6.       Stjórn sjóðsins áskilur sér rétt til þess að vísa félagsmönnum til trúnaðarlæknis félagsins
                teljist þess þörf. Sinni félagsmaður ekki boðun í viðtal frá trúnaðarlækni félagsins getur
                sjóðurinn synjað félagsmanni um greiðslur úr sjóðnum.
   4.7.       Sjóðstjórn setur reglur um eftirlit með greiðslum úr sjóðnum.
   4.8.       Þegar farsóttir geisa getur sjóðstjórnin leyst sjóðinn undan greiðsluskyldum sínum
                um stundarsakir.
   4.9.       Stjórnin getur ákveðið að fella niður styrki og lækka dagpeninga um stundarsakir ef
                 afkomu sjóðsins virðist hætta búin.
   4.10.     Sjóðnum er heimilt að eiga fasteignir undir starfsemi sína og til hagsbóta fyrir
                sjóðfélaga, til hvíldar og hressingar.
   4.11.     Til að ná markmiðum sjóðsins er stjórn hans heimilt að kaupa hóptryggingu í þágu
                sjóðfélaga, sem komi í stað núverandi reglugerðar að hluta eða öllu leyti.


5. gr.   Reikningar sjóðsins og endurskoðun

   5.1.       Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda eða
                endurskoðunarfélagi í samræmi við góða endurskoðunarvenju sem í gildi er á
                hverjum tíma.
   5.2.       Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram á
                aðalfundi félagsins áritaðir af löggiltum endurskoðanda.        
   5.3.       Í ársreikningi eða skýringum með honum skal sundurliða sérstaklega kostnað
                vegna hvers og eins bótaflokks skv. gr. 9, 10 og 11.
   5.4.       Um bókhald reikninga og endurskoðun fer að öðru leyti skv. viðmiðunarreglum ASÍ
                eins og þær eru á hverjum tíma sbr. lög ASÍ.
   5.5.       Fimmta hvert ár skal stjórn sjóðsins fá tryggingafræðing eða löggiltan
                endurskoðanda til að meta framtíðarstöðu sjúkrasjóðsins með tilliti til þess að hann
                geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt reglugerð þessari.

6. gr.   Ávöxtun sjóðsins
   6.1.       Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með eftirfarandi hætti:
   6.1.1.    Í ríkisbréfum eða skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs.
   6.1.2.    Með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum.
   6.1.3.    Í bönkum og sparisjóðum.
   6.1.4.    Í fasteignum tengdum starfsemi sjóðsins.
   6.1.5.    Á annan þann hátt er stjórn sjóðsins metur tryggan.

7. gr.   Tilhögun greiðslna úr sjóðnum
   7.1.      Umsóknir um dagpeninga og aðra styrki skulu vera skriflegar eða rafrænar á
               þar til gerð eyðublöð og þeim skulu fylgja umbeðin gögn sjóðstjórnar hverju sinni.
   7.2.      Dagpeningar eru greiddir út einu sinni í mánuði.
   7.3.      Afgreiðsla sjóðsins skal vera á skrifstofu VM.
   7.4.      Iðgjöld til sjóðsins endurgreiðast ekki.

8. gr.   Réttur til dagpeninga, bóta og styrkja
   8.1.       Þeir sem hafa greitt og verið er að greiða fyrir fullnægjandi iðgjöld til sjóðsins
                þegar réttur til aðstoðar myndast hvort sem iðgjaldaskyldan er
                kjarasamningsbundin eða tryggð með samkomulagi við sjóðinn þar sem fram 
                kemur starfsbundinn launaréttur viðkomandi í veikinda- og slysatilfellum. 
                Réttur til styrkja skv. 11.gr. miðast við að greidd hafi verið til sjóðsins fullnægjandi
                iðgjöld í a.m.k. 6 mánuði samfellt.
   8.2.       Sjóðfélagi sem fer í lögbundið fæðingarorlof eða á atvinnuleysisbætur, heldur á
                meðan réttindum til styrkja og bóta enda hafi viðkomandi ákveðið að viðhalda rétti
                sínum með greiðslu félagsgjalds.
   8.3.       Missi sjóðfélagi atvinnuleysisbætur vegna veikinda á hann rétt á bótum sem nemi
                sömu fjárhæð og atvinnuleysisbæturnar numu yfir sama tímabil.
   8.4.       Þeir sem greitt hafa til sjóðsins í a.m.k. 60 mánuði og hætta störfum vegna aldurs
                eða örorku eiga rétt til styrkja næstu 36 mánuði frá síðustu iðgjaldagreiðslu.
   8.5.       Stjórn sjóðsins er heimilt að veita styrki til sjóðfélaga sem hættur er störfum
                vegna aldurs eða örorku ef um er að ræða veikindi eða fötlun sem sjóðsféalgi 
                hefur orðið fyrir að rekja má til atvinnu viðkomandi.

9. gr.   Greiðsla dagpeninga vegna launataps samkv. 2. gr. lið 2.1.
   9.1.       Dagpeningar í veikinda- og slysaforföllum eru greiddir í allt að 180 daga eða 6
                mánuði að loknum greiðslum skv. veikinda- og slysaréttarákvæðum
                kjarasamninga.
   9.2.       Dagpeningar í veikinda- og slysaforföllum barna og maka greiðast að hámarki í 90 daga
                að loknum greiðslum skv. ákvæðum kjarasamninga.
   9.3.       Upphæð dagpeninga er 100% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur
                verið greitt af síðustu 6 mánuði fyrir veikindi eða slys Sjóðsstjórn getur þó ákveðið 
                lægri hlutfallstölu, þó ekki undir 80% þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið
                greitt af. 
   9.4.       Dagpeningar greiðast ekki þegar bótaskylda vegna slyss eða atvinnusjúkdóms,
                þ.m.t. bifreiðaslysa, sem fellur á tjónvald og bætur fást greiddar skv. skaðabótalögum
                úr hendi hans eða á grundvelli ábyrgðartryggingar.
   9.5.       Dagpeningar greiðast ekki, þegar um varanlega örorku eða ellihrumleik er að
                ræða.
   9.6.       Vegna meðferðar við áfengis - og/eða fíkniefnasýki er heimilt að greiða
                dagpeninga í sama dagafjölda og viðkomandi var í meðferð, enda hafi viðkomandi
                notið meðferðar á viðurkenndri stofnun. Fjöldi meðferða sem greitt er fyrir geta ekki
                orðið fleiri en tvær á hverju fimm ára tímabili.
   9.7.       Heimilt er að fjárhæð dagpeninga taki mið af iðgjaldsprósentu ásamt veikinda- og
                slysaréttarákvæðum viðkomandi kjarasamnings.
   9.8.       Stjórn sjóðsins er heimilt að brúa tímabundinn vanda sjóðfélaga sem á bótarétt
                vegna slyss eða atvinnusjúkdóms, ef verulegur dráttur verður á uppgjöri, með því 
                að veita honum lán að sömu fjárhæð og bætur úr sjóðnum myndu ella nema. Slík
                lán verða aðeins veitt gegn tryggingu um endurgreiðslu.
   9.9.       Sjóðstjórn ákveður hámark dagpeninga þó að lágmarki 250.000 kr./mán.
   9.10.     Samanlagður fjöldi daga samkvæmt liðum 9.1. til og með 9.8. geta þó aldrei orðið fleiri
                en 180 ( 6 mánuðir ) á hverju 12 mánaða tímabili. Réttur samkvæmt liðum 9.1. til og
                með 9.8. endurnýjast á hverjum 12 mánuðum, hlutfallslega eftir því sem hann er nýttur,
                talið frá þeim degi sem dagpeningagreiðslum líkur hverju sinni og greiðslur iðgjalda
                hefjast að nýju. 
   9.11.     Réttur til dagpeninga og annarra greiðslna úr sjóðnum fellur niður sé þeirra ekki
               vitjað innan 12 mánaða frá því að rétturinn stofnaðist.
   9.12.     Heimilt er að miða dagpeninga við meðaltal launa síðustu 12 mánaða í stað 6 mánaða,
                hafi tekjur sjóðfélaga breyst verulega til hækkunar eða lækkunar á tímabilinu.

10. gr.  Greiðsla dánarbóta samkvæmt 2. gr. lið 2.2.
   10.1.    Vegna andláts virks og greiðandi sjóðfélaga greiðast dánarbætur til eftirlifandi 
               maka og / eða barna undir 18 ára aldri sem nemi að lágmarki 90% af meðaltali
               heildarlauna síðustu 3ja starfsmánaða fyrir andlát.
   10.2.    Falli sjóðfélagi frá sem er greiðandi til sjóðsins eða hefur greitt til sjóðsins í a.m.k.
               60 mánuði áður en hann hætti störfum skal greiða útfararstyrk samkvæmt 
               ákvörðun sjóðstjórnar hverju sinni.

11. gr.  Styrkir til sjóðfélaga samkv. gr. 2.gr. lið 2.3.
   11.1.     Endurhæfingar.
   11.2.     Ferða og dvalar fjarri heimabyggð vegna veikinda.
   11.3.     Forvarna.
   11.4.     Kaupa á sjónglerjum, heyrnartækjum og stoðtækjum.
   11.5.     Skilgreindra læknisaðgerða.
   11.6.     Tæknifrjóvgana og ættleiðinga.
                Stjórn sjóðsins skal í upphafi hvers árs ákveða skilyrði og fjárhæð styrkjanna.

12. gr.  Breytingar á reglugerð
   12.1.     Breytingar á reglugerð þessari taka því aðeins gildi, að þær hafi hlotið samþykki 
                aðalfundar VM og ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Tillögur til breytinga á  
                reglugerðinni skulu hafa borist stjórn sjóðsins fyrir 1.febrúar ár hvert.

13. gr.  Samþykkt reglugerðarinnar og gildistaka
   13.1.     Reglugerðin var samþykkt á stofnfundi VM 14. október 2006 og tekur gildi frá og
                með 20. október 2006.
   13.2.     Um bótarétt sem varð til fyrir gildistöku reglugerðarinnar gilda þær reglur sem voru
                í hvorum sjóði fyrir sig.
   13.3.     Frá og með 20. október eru fjárhæðir styrkja eins og fram kemur á fylgiskjali 1. 
                ,,Styrkir til sjóðfélaga".
  
 
Þannig samþykkt á stofnfundi VM 14. okt. 2006 og með breytingu á gr. 9.3  samþykktri á aðalfundi 04.04.08.
Og breytingum á aðalfundi VM 17. 4. 09 á greinum 9.3 og 10.1
Og á aðalfundi 26.03.2011 á grein 8 (8.5 sett inn)
Og breytingum á aðalfundi VM 12.4.2013 á grein 9.3
Og breytingum á aðalfundi VM 4.4.2014 á greinum 4 (nýr liður 4.6), 9.3 og 9.4.
Og breytingum á aðalfundi VM 27.03.2015 á greinum 4.4, 9.7, 9.11 og 10.1
Og breytingu  á aðalfundi VM 29.03.2019 þar sem grein 9.6. var felld úr reglugerðinni
Og breytingu á framhaldsaðalfundi VM 9.09.2020 þar sem samþykktar voru breytingar
á greinum 4.6, 5.4, 7.1, 8.1 og 9.2.

Reglugerð sjúkrasjóðs í pdf skjali