26.10.2018

Drífa Snædal kjörin nýr forseti ASÍ

Talning í kjöri til forseta Alþýðusambands Íslands er lokið og féllu atkvæði þannig að Drífa Snædal hlaut 192 atkvæði eða 65,8% en Sverrir Mar Albertsson fékk 100 atkvæði eða 34,2%. Atkvæði greiddu 293 og var eitt atkvæði ógilt.

Drífa Snædal er 45 ára viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands auk þess að vera með meistarapróf í vinnumarkaðsfræðum og vinnurétti frá Háskólanum í Lundi. Drífa hefur starfað sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands frá árinu 2012 en áður var hún framkvæmdastjóri Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samtaka um Kvennaathvarf.

Drífa Snædal er fyrsta konan sem er kjörin í embætti forseta ASÍ í 102 ára sögu Alþýðusambands Íslands.