20.12.2018

Horfur í samningamálum

Í nóvember hófust samningaviðræður á milli launafólks og atvinnurekanda um nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði SGS og VR byrjuðu fyrst að ræða við SA. Þann 30. nóvember var fyrsti fundur á milli iðnaðarmannafélaganna og SA.

Þegar þessi orð eru rituð eru viðræður bara rétt að hefjast, aðilar eru rétt að byrja að leggja fram sínar kröfur. Það er þó ljóst að langt er á milli samningsaðila, allavegana svona í byrjun. Það sem ég hræðist þó mest er hvað grunnhugsun er ólík á milli aðila. SA gengur út frá því að það sé aðeins einn pottur til skiptanna til launa og nú sé bara að ákveða hvernig við ætlum að skipta honum á meðal launafólks. Aftur á móti erum við sem vinnum fyrir launafólk á því að það sé hægt og eigi, bæði að breyta skiptingu kökunnar og eins er möguleiki að stækka hana líka.

Það er ljóst að á undanförnum árum hefur átt sér stað flutningur ráðstöfunartekna frá láglauna- og millitekju fólki til hátekjuhópanna í þjóðfélaginu. Sá flutningur hefur meðal annar átt sér stað í gegnum skattkerfið okkar. Hlutfall skatta á lægstu laun hafa hækkað hlutfallslega á meðan skattar á hina hæst launuðu hafa lækkað hlutfallslega. Á sama tíma hafa svo skerðingar á barna- og vaxtabótum aukist. Það má því segja að ríkisvaldið hafi gengið mjög langt frá þeirri stefnu að nota skattakerfið til þess að jafna kjörin í landinu og styðja við þá sem bestu kjörin hafa á kostnað þeirra sem lökustu kjörin hafa. Ef við ætlum að byggja upp sanngjarnt og réttlát þjóðfélag þar sem allir geta fengið jöfn tækifæri þá verðum við að snúa af þeirri braut sem við höfum verið á.

Í núverandi kröfum á atvinnurekendur er talað um að færa launataxta að greiddu kaupi og styttingu vinnuvikunnar. Okkar fólk er sá hópur sem er með hvað lengstu vinnuvikuna og því er mjög áríðandi að ná að stytta rauntíma vinnuvikunnar án þess að skerða laun. Til þess að það hafist þarf að ná að halda sömu framlegð á styttri tíma, þá þarf ekki að velta kostnaðinum yfir á verkkaupa.

Iðnaðarmenn hafa á undanförnum árum dregist aftur úr úr öðrum viðmiðunarhópum. Ástæðan er meðal annars sú að launatöflur eru langt frá því að endurspegla markaðslaun. Mörg fyrirtæki nýta sér þó fáfræði t.d. erlends vinnuafls og hjá ungu launafólki, greiða þeim aðilum eftir töxtum á meðan engin sem veit hvernig markaðurinn virkar vinnur á markaðskjörum. Það er ekki boðlegt að hér á landi sé að myndast tvöfalt kerfi sem keyrt er áfram á því að þeir sem vita ekki betur vinni á kjörum sem eru langt undir markaðslaunum.

Ljóst er að skortur er á iðnaðarmönnum á Íslenskum vinnumarkaði, atvinnurekendur hafa minnkað þann skort með því að fá erlenda iðnaðarmenn til sín í vinnu. Sem er skiljanleg ráðstöfun en það er ljóst að ekki er hægt að líða það lengur að erlendir iðnaðarmenn sem vinna við hlið innlendra iðnaðarmanna séu á verri kjörum.

Ef á að takast að landa kjarasamningum fljótt og vel þá verður ríkisvaldið að ganga að kröfum stéttarfélaganna um kerfisbreytingar á bóta- og skattkerfinu sem gagnast fyrst og fremst lág og millitekjuhópum.

Að lokum vil ég fyrir hönd VM senda félagsmönnum, fjölskyldum þeirra og landsmönnum öllum innilegar óskir um gleðileg jól og farsældar á komandi ári.

Guðm. Helgi Þórarinsson formaður VM