2.6.2018

Hvað má og hvað má ekki

Nú hafa ráðherrarnir Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir brugðist við góðri 1. maí ræðu Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR. Bjarni sagði í mbl. 3. maí að kröfur sem heyrðust í ræðu Ragnars snúa að allt öðru „og hafa ekkert með kjarasamninginn að gera, og menn boða verkföll vegna slíkra mála, sýnist mér hæpið að slíkt standist lög og spurning hvort menn eru að berjast á réttum vettvangi. Það er líka hægt að bjóða sig fram til Alþingis, ef menn vilja hafa áhrif þar.“ Þá sagði Katrín í fréttum Stöðvar 2 að hún hefði efasemdir um skilaboð Ragnars og nýrrar forystu verkalýðshreyfingarinnar. Hún sagði baráttu þeirra seilast út fyrir svið kjarabaráttunnar í átt að félagslegum umbótum og félagslegri stefnu sem verði „auðvitað aldrei mótuð annars staðar en hér á lýðræðislega kjörnu Alþingi“ Þá viðraði hún einnig efasemdir um að slíkar aðgerðir og forsendur þeirra stæðust lög. Það er merkilegt að heyra ráðamenn þjóðarinnar segja þetta og vitna í lög.

Á undanförnum árum hefur ríkisvaldið sett allskonar lög sem hafa haft bein áhrif á ráðstöfunartekjur fólks, þá sér í lagi þeirra tekjuminni. Lækkun barna- og vaxtabóta og skattalækkanir sem hafa haft meiri áhrif á tekjur þeirra tekjuhærri heldur en þeirra tekjulægri. Persónuafsláttur sem átti að fylgja verðlagi hefur ítrekað verið skertur, og eftirlaunaþegar verið skertir krónu á móti krónu. Það getur ekki talist réttlátt að ríkið græði lang mest á hækkandi lífeyrisgreiðslum. Kemur þetta kannski ekkert verkalýðsbaráttu við?

Tugprósenta bónusar á ofurlaun stjórnenda jafnt í einkarekstri sem ríkisrekstri. Hækkanir kjararáðs langt umfram hækkanir annarra, þar með alþingismanna. Kemur þetta kannski ekkert verkalýðsbaráttu við?

Svo langt geta stjórnvöld teygt sig að skerða þær hækkanir sem samið hefur verið um, að fólk segir nú er komið nóg. Í gegnum tíðina hefur verkalýðsforustan staðið fyrir ýmsum framförum á atvinnumarkaði sem ekki tengjast beinum launahækkunum. Má þar nefna m.a. almannatryggingar, vinnulöggjöfina, styttingu vinnuvikunnar, verkamannabústaði og stofnun lífeyrissjóða svo eitthvað sé nefnt. Nú má ekki tala um raunvexti, skattaálag á lægstu laun né húsaleiguokur. Kemur þetta kannski ekkert verkalýðsbaráttu við?

Stjórnvöld verða að eiga samtal um innihald krafna stéttarfélaganna, en mega ekki fara að deila um það sem má og ekki má. Það er ljóst að ef það á að nást sátt í þjóðfélaginu þarf að endurhugsa skiptingu kökunnar, brauðmolahagfræðin gengur ekki lengur.

Lög eða ólög?

Ein birtingarmynd þeirra laga sem eru samþykkt á Alþingi eru lög frá 2003 nr. 139 19. desember. Lög um tímabundna ráðningu starfsmanna. Á grundvelli þessara laga hafa útgerðarmenn verið að ráða menn einn túr í einu. Við það missa menn veikindarétt sinn. Það er ef menn veikjast í frítúr og komast ekki næsta túr, þá eru þeir launalausir. Sjómenn sem hafa verið hjá sömu útgerð á sama skipi jafnvel í áratugi hafa lent í svona aðstæðum. Það er skipið er sett á sölu, mönnum sagt upp en salan dregst. Þeir eru þá ráðnir einn túr í einu á meðan og hafa engan veikindarétt lengur. Ég trú því ekki að tilgangur laga þessa hafi verið að taka veikindaréttinn af starfsfólki sem búið er að sýna atvinnurekanda hollustu í mörg ár jafnvel áratugi. Það getur ekki verið ætlun Alþingis að taka af mönnum veikindaréttinn, rétti sem var komið á fyrir 60 árum og þykja sjálfsögð mannréttindi. Þessu verður að breyta. Kemur þetta kannski ekkert verkalýðsbaráttu við?

Verkalýðsfélög eiga fyrst og fremst að standa vörð um kaup og kjör sinna félagsmanna, en þau hljót að eiga líka að verja þau réttindi sem áunnist hafa í gegnum tíðina og standa vörð um réttlátt þjóðfélag. Alþingismenn mega ekki vaða yfir almenning á skítugum skónum og breyta lögum sem skerða bætur og réttindi fólks og segja svo að það komi verkalýðshreyfingunni ekkert við. Forsætisráðherra sagði að félagslegar umbætur og félagsleg stefna verði „auðvitað aldrei mótuð annars staðar en á lýðræðislega kjörnu Alþingi“
Alþingi getur ekki verið hafið yfir gagnrýni. Það er sama hvort við erum forsætisráðherra, fjármálaráðherra, alþingismenn eða forustufólk verkalýðsfélaga þá hljótum við að ætla búa til réttlát þjóðfélag fyrir ALLA.

Að lokum vil ég í tilefni Sjómannadagsins þann 3. júní nk. óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með daginn.

Kær kveðja.
Guðmundur Helgi Þórarinsson
Formaður VM félags vélstjóra og málmtæknimanna.