5.4.2018

Samninganefnd fyrir almenna kjarasamning VM við SA

Fyrir rúmum þremur vikum var sent bréf á trúnaðarmenn til að hengja upp á  vinnustöðum, þar sem kallað var eftir einstaklingum í samninganefnd almenna kjarasamnings VM við SA. Framundan eru mjög krefjandi verkefni við að endurnýja gildandi kjarasamning.

Við þurfum að móta kröfugerð, við munum þurfa að ákveða hvort og með hverjum við viljum vinna auk annarra krefjandi verkefna. Þess vegna var það skoðun okkar hjá VM að kalla eftir því að fá um tuttugu einstaklinga í samninganefndina. Hugmyndin er að fá sem mesta breidd í nefndina til að hún endurspegli sem flest sjónarmið félagsmanna VM. Fram að þessu hafa einungis tveir boðið sig fram til að vera í samninganefndinni. Ég hefði haldið, miðað við þá miklu ólgu sem er í umræðunni um kjaramál og kröfur á stjórnvöld, að meiri áhugi væri hjá félagsmönnum að taka þátt í þessari vinnu sem framundan er. Ég skora sérstakleg á yngri einstaklinga að koma og taka þátt í þessari vinnu, hún er lærdómsrík og þetta er ykkar framtíð sem er verið að marka.

Til að skrá sig, þá sendið póst á gudnig@vm.is

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM