26.4.2018

Guðmundur Helgi nýr formaður VM

Ég er vélfræðingur og hef starfað bæði til sjós og lands. Kjara- og réttindamál hafa lengi verið mér hugleikin og ég legg áherslu á að þar sækjum við fram. Frá stofnun VM hef ég verið fulltrúi í aðalstjórn VM og þar áður um árabil í stjórn Vélstjórafélags Íslands. Ég hef verið í samninganefnd fyrir fiskimenn, verið í lífeyrisnefnd og fagnefnd sjómanna. Þá er ég í fulltrúaráði Gildis lífeyrissjóðs og varamaður í fulltrúaráði Sjómannadagsráðs.

Ég er fæddur 7. ágúst 1959 á Ísafirði en flutti ungur á Suðurland og er aðallega alinn upp í Flóahreppi þar sem ég sótti Villingaholtsskóla. Landsprófi lauk ég frá Gagnfræðaskóla Selfoss 1975, 4. stigi Vélskóla Íslands 1980 og sveinsprófi í vélvirkjun í febrúar 2015.

Allt frá 1980 hef ég verið á fiskiskipum, ef frá eru talin 4 ár sem ég starfaði í landi. Núna starfa ég sem 1. Vélstjóri á Vigra RE.

Ég er í sambúð með Maríu Hlíðberg Óskarsdóttur og búum við í Lundi Kópavogi. Saman eigum við fjögur börn og níu barnabörn. Fjölskyldan skipar stóran sess meðal áhugamálanna og alltaf stærri og stærri eftir sem barnabörnunum fjölgar. Við María spilum golf þegar við komum því við. Einnig fylgist ég með knattspyrnu bæði hér heima og í ensku deildinni. Og að sjálfsögðu íslenska landsliðinu.

Áherslumál mín eru m.a.


°   Stéttarfélög eiga alltaf að hugsa um kjör sinna félaga númer eitt, tvö og þrjú.  VM er að veita góða þjónustu í sjúkra- og styrktarsjóði, fræðslusjóði og orlofssjóði. Aftur á móti tel ég að við eigum að fara aðrar leiðir til að ná betri árangri í kjaramálum.

°  Auka þarf virðingu fyrir iðnnámi og gera námið eftirsóknarverðara. Gera þarf starfið fjölskylduvænna bæði hvað varðar laun og vinnutíma. Ef við náum því ekki mun öll vinna færast meira yfir í verktöku erlendra starfsmanna og þekking í landinu tapast. Vinnumarkaðurinn á Íslandi núna er þannig að mikil þörf er fyrir erlent vinnuafl en þeir eiga þá að vera með réttarstöðu launamanna og starfa við hlið okkar. Ekki gerðir út í verktöku til þess að ná niður launum.

°   Hvað fiskiskipin varðar þá er ljóst ef menn ætla að halda haus verða menn að fara að snúa bökum saman og koma fram sem ein heild. Öll stéttarfélögin. Við eigum svo mikið meira sameiginlegt heldur en bara kjölinn undir skipunum.

°  Í lífeyrismálum þá á hinn almenni félagi að fá að koma meira að stefnumótun sjóðanna, þetta eru okkar peningar. Við höfum ekkert um það að segja hvernig þeim er ráðstafað, hvorki í fjárfestingarleiðum né útgreiðslum. Smá breyting hefur orðið til batnaðar með breytingu á störfum fulltrúaráðanna en betur má ef duga skal.

°  Efla þarf innra félagsstarfið og virkja betur unga fólkið. Formaður, stjórn og starfsfólk á að vera í þjónustu við hinn almenna félaga. Stefnumótunin á að koma frá grasrótinni. Það þarf að gera þær nefndir sem eru starfræktar í félaginu virkari í allri stefnumótun.

Styrkur hvers félags liggur í félagsmönnunum YKKUR.

Kær kveðja, Guðmundur Helgi Þórarinsson formaður VM