2.12.2014

Samfélag á tímamótum

Íslenskt samfélag stendur á tímamótum varðandi úrlausnir á mörgum stórum málum sem  vandséð er hvernig verða leyst. Eitt af stærstu verkefnum okkar hjá VM er lagfæring á ónýtu dagvinnulaunataxtakerfi. Við þurfum að vinda ofan af yfirvinnu vítahringnum, með aukinni framlegð og skipulagi. Margir iðnaðarmenn og vélstjórar hafa farið t.d. til Noregs að vinna. Þar hafa þeir kynnst vinnutíma sem við höfum ekki náð að þróa hér á landi. Þessar breytingar á vinnumarkaðnum sem kallað er eftir verða að koma sem fyrst ætlum við ekki að missa allt unga fólkið úr landi, það eru aðrar kröfur hjá nýrri kynslóð. Atvinnugreinarnar verða að aðlaga sig að þessum breytingum sem eru að verða. Þeir sem reka fyrirtækin og starfsmenn í viðkomandi starfsgreinum eiga að finna lausnir til að auka framlegð og hækka dagvinnulaun. Við eigum að leggja til hliðar síendurtekna hagfræðifrasa sem engu hafur skilað. Tökum upp aðferðir sem aðrar þjóðir hafa þróað, aðferðir sem  skilað hafa árangri og sjáum hvert það leiðir okkur. Úttekt á aldursdreifingu félagsmanna VM sem birt var í síðasta hefti Tímarits VM segir mikið um þróunina, sem er óásættanleg fyrir atvinnulífið. VM er með um áttatíu og fimm prósent þeirra sem starfa í vél- og málmtækni á Íslandi í dag.
Mikill niðurskurður í heilbrigðis- og menntakerfinu, hækkun matarskatts auk annarra aðgerða er að valda mikilli ólgu í samfélaginu. Niðurskurðurinn og skattahækkanirnar eru afleiðingar af eftirgjöf á sköttum á þá sem best eru staddir í samfélaginu og á fyrirtæki sem eru að skila ótrúlegum hagnaði til eigenda. Vissulega eru vextir og afborganir af skuldum ríkissjóðs sorglega há upphæð af fjárlögunum, en þetta verðum við að greiða og um leið skerðir það getu okkar til að efla uppbyggingu samfélagsins. Ég tel samt að framkvæmdin af hálfu núverandi stjórnvalda sé aðför að því samfélagi sem ég vil trúa að allir Íslendingar vilji hafa. Það er eðlilegt að þeir sem eru að njóta góðs af stöðu gjaldmiðilsins leggi meira af mörkum en þeir sem varla eiga fyrir mat eða húsnæði fyrir sig og börnin sín.

Kjarasamningar vélstjóra á fiskiskipum hafa verið lausir í tæp fjögur ár.  Enn eitt frumvarpið um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða mun koma á næstu vikum og það mun hafa afgerandi áhrif á það hver framvindan verðu í að fá viðsemjendur okkar að samningaborðinu. Verðlagsmálin eru hins vegar að verða mjög flókin og uppstokkun á núverandi kerfi verður að koma til ef ná á samningum.

Óhugnanlegur þrælsótti hefur þróast í umhverfi sjávarútvegsins. Að nafninu til eru gerðir samningar milli áhafnar og útgerðar um fiskverð, við gerð þeirra eru menn rækilega minntir á að það séu biðraðir af mönnum í pláss hjá viðkomandi útgerð. Hver skrifar ekki undir og hugsa um afkomu fjölskyldu sinnar. Er þetta einhver samningstaða? Hins vegar er það í þessu eins og mörgu öðru að sumir kunna með þetta að fara en  aðrir ekki og þar eru vandamálin.
Skipin hafa stækkað, afköst þeirra og veiðigeta hefur aukist gríðarlega og þau eru orðin tiltölulega fá skipin sem fiska veiðiheimildirnar, launin hafa því verið góð sem betur fer. Þetta eiga sumir útgerðarmenn erfitt með að sætta sig við og reyna þá að fækka í áhöfnunum þessara skipa eins og hægt er. Án þess að hægt sé að fá vitræna umræðu um hvað hægt sé að ganga langt í fækkun í áhöfn út frá verkefnum skipanna og vinnuálagi áhafna.
Við höfum lengi barist við útgerðir um frávik frá mönnun vélstjóra á fiskiskipum. VM náði þeim áfanga að komast frá þeirri valdbeitingu sem var beitt í mönnunarnefnd yfir í að reyna að uppfylla rannssóknarreglu stjórnsýslulaga eins og gerð var krafa um í úrskurðum Innanríkisráðuneytisins þegar það hefur fellt úr gildi úrskurði mönnunarnefndar, eftir að VM hafði kært þá. Það fæst hins vegar ekki friður til að koma þeirri vinnu inn í faglegan farveg og leggja mat á það hvort forsvaranlegt sé að veita frávik frá mönnun eða hvort það er hægt. Þar erum við líka komin með þrælsóttavandamál, vegna þess að ef menn tjá sig um hlutina eins og þeir eru, þá hafa þeir áhyggjur af því að það kosti þá starfið. Frekjan og yfirgangurinn er orðinn þannig í þessum mönnunarmálum að einn framkvæmdastjórinn talar um þann fjárhagslega skaða sem fyrirtækið muni verða fyrir þurfi hann að fara að lögum um mönnun vélstjóra á fiskiskipum. Ég spyr mig að því hvort þetta er ekki að verða ein af ástæðunum fyrir flótta fólks af landsbyggðinni. Hver vill eiga framtíð sína undir misvitrum mönnum sem vaða uppi með frekju og yfirgang, umbera engan sem ekki er þeim sammála. Valdið er vandmeðfarið og ekki öllum gefið að fara vel með það.
Framundan er erfiður vetur og það verður tekist á. Ekkert traust er til að byggja á og vandséð hvar á að hefja vinnu við að byggja það upp aftur milli aðila hvort sem það er við stjórnvöld eða Samtök atvinnulífsins.
Það er orðin mín staðfasta trú og sannfæring að við þurfum að gefa hagfræðingunum frí og fara í að leysa vandamálin út frá almennri skynsemi.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM