30.12.2014
Í lok árs 2014 (1)
Árið sem er að líða fór á annan veg en ætlað var við gerð kjarasamninga. Fyrirheit um ný vinnubrögð sem taka átti upp með aðfarasamningi reyndist innihaldlaust og við vorum svikin um nýtt verklag.
Það voru mikil vonbrigði og sýnir okkur að við þurfum að koma fram í komandi kjarasamningum af mikill hörku og treysta engu. Stjórnvöld hafa sent okkur skýr skilaboð sem verður líka að mæta af mikill hörku. Á hvaða vegferð stjórnvöld eru er erfitt að átta sig á, hins vegar verðum við að átta okkur á því að hugmyndafræði um jöfnuð og viðhald áunninna réttinda eru ákveðin í kosningum til Alþingis en ekki á borði kjarasamninga.
Sitjandi ríkisstjórn er fyrir auðmenn þessa lands og náði fylgi sýnu með gylliboðum sem launamenn borga síðan fyrir sjálfir. Við kusum það sjálf yfir okkur að auka ójöfnuð í samfélaginu og verðum að axla þá ábyrgð.
VM mun fara fram af mikilli hörku um að hið auðuga hagkerfi Íslands samkvæmt öllum hagmælingum verði stillt af miðað við ásættanleg dagvinnulaun. Við erum föst í lágum dagvinnulaunum og mikilli vinnu til að ná endum saman í mörgum greinum atvinnulífsins. VM hefur sett fram hugmyndir um breytt vinnubrögð í vél- og málmtækni sem auka mun framlegð og rétta af kolvitlausa verðlagningu þessara greina inn í hagkerfið. Við eigum ekki að gefa vinnu okkar t.d. til álfyrirtækja eins og gert er í dag.
Við munum hefja fimmta árið með lausa samninga við útgerðamenn og enn eitt frumvarpið mun koma fram um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og veiðigjöldum. Staðan í verðlagsmálum á fiski er hins vegar komin á þann stað að við verðum að undirbúa aðgerðir og kalla eftir heimild til vinnustöðvunar á þeim hluta fiskveiðiflotans til að kalla fram breytingar á kerfinu. Við getum ekki haft lengur ónýtt verðmyndunarkerfi á fiski sem ekki virkar.
Ásýndarbreytingin með því að breyta LÍÚ yfir í SFS leggst ekki vel í mig og það eru komin önnur samskipti sem erfitt er að átta sig á. Það mun hins vegar fljótlega koma betur í ljós með hvaða hætti hið nýja LÍÚ mun starfa. Það hefur komið upp í huga minn að hugsanlega muni ekki langur tími líða þar til menn fara að sakna LÍÚ og þeirra sem stjórnuðu þeim samtökum.
Það eru mörg krefjandi verkefni framundan hjá okkur á komandi ári, við eigum að fara fram á okkar forsendum og koma því í framkvæmd sem þarf til að ná markmiðum okkar. Við eigum að fara í verkfallsaðgerðir strax og núverandi kjarasamningar VM renna út verði ekki búið að semja. Samræmd launastefna virkar ekki nema sem neyðarúræði til skamms tíma og vissulega tókum við þátt í henni, nú hefur hún runnið sitt skeið.
Sú hagfræði sem stöðugt er sungin yfir okkur um að ef einhver hluti af verðmætasköpun hagkerfisins fari á launamenn þá skapi það verðbólgu og hörmungar, er ég hættur að hlusta á. Það virðist vera alveg sama hve miklum hluta af verðmætasköpun hagkerfisins fer á hlutfallslega fáa í formi ofurlauna, bónusa og arðs, það veldur engum verðbólguskotum. Ég ætla að viðurkenna það að ég skil ekki þessa hagfræði og tel hana ekki ganga upp. Þetta eru sömu krónurnar, eingöngu spurning um í hvaða vasa þær lenda hvort það skapar verðbólgu eða ekki. Enda virðist mér hagfræðin frekar vera hugvísindi en eitthvað til að byggja á til að ná árangri í að auka jöfnuð innan hagkerfis eins og við höfum. Það er mín skoðun að við eigum að gefa öllu hagfræðifrösunum frí og takast á við að auka jöfnuð í samfélaginu og ná ásættanlegum dagvinnulaunum útfrá almennri skynsemi.
Ég er ekki sammála þeim kenningum að lág verðbólga í dag sé vegna lágra launahækkana sem voru í aðfarasamningnum, enda trúir enginn því að það sé kominn einhver stöðuleiki í hagkerfið þó tímabundið mælist verðbólga lág.
Það mun taka mörg ár að fá trú á stöðuleika í hagkerfið og hluti af framkvæmdinni er að hafa verðtryggð laun í þrjú til fimm ár, þar sem allir þurfa að axla ábyrgð á stöðuleikanum, það er eina leiðin til að fá almenning til að hafa trú á því verkefni að fenginni reynslu.
Sú aðferðafræði að launafólk eigi eitt að bera ábyrgð á stöðuleikanum hefur ekki gengið upp.
Það verða allir í samfélaginu að axla ábyrgð og taka þátt í verkefninu, fyrr mun ekki takast að koma á stöðuleika í íslensku hagkerfi.
Það er sameiginleg skoðun félagsmanna VM að knýja þurfi fram breytingar á mörgum sviðum. Það hefur komið fram á mörgum og fjölmennum fundum hjá félagsmönnum VM að nú sé nóg komið og tími kominn til aðgerða ef þarf til að ná fram kröfum okkar og að á okkur verði hlustað.
Látum verkin tala á komandi ári og beitum okkur af hörku þar sem það þarf til að ná árangri.
Ég óska félagsmönnum VM, fjölskyldum þeirra og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og farsældar á komandi ári.
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM