18.9.2014
Að axla ábyrgð á kjarasamningum
Að axla ábyrgð á gerð kjarasamninga þarf ekki alltaf að snúast um litlar launahækkanir eins og umræðan um kjaramál snýst oftast um. Það er að ekki megi hækka laun ef viðhalda á stöðuleika í hagkerfinu. Síðustu kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum voru hins vegar tilraunarinnar virði. Markmið þeirra var m.a. að vinna tíma sem átti að nýta til að vinna málefnalega að breytingum á vinnubrögðum við gerð kjarasamninga. Ég leit svo á og talaði fyrir því að við fengjum tíma til að framkvæma þessar breytingar. Um leið væri verið að leggja af hina svokölluðu samræmdu launastefnu sem hefur verið framkvæmd undanfarin ár. Það er áhyggjuefni og mikill vonbrigði að öll aðkoma Samtaka atvinnulífsins að nýjum og breyttum vinnubrögðum voru orðin tóm. Þeir ætla að halda miðstýringunni og engu að breyta. Við megum hins vegar ekki gefa það eftir, við ætlum að taka upp ný vinnubrögð við gerð kjarasamninga.
Þó náðst hafi tímabundinn árangur með að lækka verðbólgu, er sá árangur ekki í hendi. Það er engin lausn að fresta hækkununum vitandi það að þær muni koma með margföldum þunga síðar. Það hefur heldur betur verið safnað í þær, eins og málin hafa verið að þróast hjá hinu opinbera og sveitarfélögunum.
Hin svokallaða samræmda launastefna hefur valdið miklum skaða í launaumhverfi margra starfsgreina. Launatöflur félagsmanna VM eru ónýtar og ekkert eftir að gera með þær en að henda þeim og búa til nýjar.
Það er mikil vinna framundan á íslenskum vinnumarkaði við að lagfæra laun í mörgum atvinnugreinum. Við þurfum að ná fram umtalsverðum breytingum í íslensku atvinnulífi með því að auka framlegð eins og hægt er. Í aukinni framlegð liggja ómæld verðmæri til að auka hagsæld í landinu.
Það er alveg sama hvað sett verða fram háleit markmið og áætlanir til að ná fram aukinni framlegð, hún mun ekki nást nema byrjað sé á því að hækka dagvinnulaun verulega. VM telur að eðlileg dagvinnulaun vél- og málmtæknimanna með fimm ára starfsreynslu eigi að vera 470.000 kr. á mánuði. Ástæða fyrir mikilli yfirvinnu í okkar atvinnugreinum eru léleg dagvinnulaun sem enginn getur framfleytt sér á. Allir verða að vinna yfirvinnu til að ná endum saman. Þar liggur meðal annars ein af meinsemd lélegrar framlegðar á Íslandi.
Umræða um að auka framlegð þarf að vera á réttum forsendum og það verður að viðurkenna vandamálin sem þarf að leysa, annars verður engin breyting. Með sameiginlegu átaki allra í atvinnugrein eins og vél- og málmtæki er lítið mál að ná fram aukinni framlegð. Að þessari endurskipulagningu þurfa að koma atvinnurekendur, launþegar og einnig viðskiptavinir fyrirtækjanna með lengri og betri verkefnaundirbúning. Þetta verður ekki gert nema með viðræðum við þá sem reka fyrirtækin í greininni, ekki við starfsmenn Samtaka atvinnulífsins.
Róttækar breytingar verður að gera, ætli þessar greinar að lifa af og geta laða til sín hæft starfsfólki til að efla sig. Það er komið að ögurstund í íslensku atvinnulífi og mikil þörf á breytingum til að auka framlegð.
VM er tilbúið í þá vinnu og kallar eftir því að komast sem fyrst í þessa vinnu með atvinnurekendum í þeim greinum atvinnulífsins sem félagsmenn okkar starfa.
Með samræmda launastefnu, fastir í meðaltölum og prósentum, munum við halda áfram að grafa undan íslensku atvinnulífi og rýra lífskjör til framtíðar.
Brjótumst út úr þessum vitahring við endurnýjun kjarasamninga í febrúar 2015. Við megum ekki missa sjónar á því að reyna að læra af þeim þjóðum sem náð hafa árangri í að auka kaupmátt. Ég kalla eftir vitrænni útfærslu frá Samtökum atvinnulífsins, um raunhæfar breytingar til að auka framlegð í íslensku atvinnulífi, með það að leiðarljósi að hægt sé að lifa á dagvinnulaunum eins og er hjá þeim þjóðum sem viljum helst bera okkur saman við.
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM