30.6.2014

Vald sem á að beita til góðs.

Á ársfundi Gildis lífeyrissjóðs 30. apríl s.l. var borin fram tillaga frá Erni Pálssyni framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda um að fulltrúi Gildis í stjórn Haga bæri fram tillögu í stjórn fyrirtækisins um að laun, hlunnindi og bónusar framkvæmdarstjóra yrðu ekki hærri en þrjár milljónir á mánuði. Gildi lífeyrissjóður á 10.32% í Högum.
Tillögunni var vísað til stjórnar sjóðsins eftir miklar umræður um að hún væri ekki með réttu formi fyrir aðalfundinn eins og hún væri sett fram. Þetta var áhugaverð uppákoma og varpar fram mörgum spurningum?

Í tillögunni var vitnað í grein úr siðareglum Gildis:

´´Sjóðurinn fjárfestir í samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum sem fylgja lögum og reglum samfélagsins og viðurkenndum viðmiðum um góða stjórnarhætti og viðskiptasiðferði. Sjóðurinn fjárfestir ekki í fyrirtækjum sem ofbjóða siðferðisvitund almennings með ósanngjarnri framkomu gagnvart starfsfólki s.s. varðandi kjör og stjórnunaraðferðir eða með óhófi í launamálum stjórnenda sem og öðrum rekstrarþáttum. Stjórn tekur afstöðu til slíkra mála sem upp koma og ákveður hvort selja eigi hlut sjóðsins í ljósi þeirra viðbragða sem athugasemdir við óeðlilega starfshætti fá.,,

Í umræðunni á fundinum komu fram þau sjónarmið að ekki væri hægt að segja stjórnarmanni Gildis, sem sjóðurinn á í stjórn Haga, fyrir um stefnu stjórnar lífeyrissjóðsins, hann ætti að vinna eftir eigin sannfæringu. Þetta er ekki ólíkt sjónarmið og Fjármálaeftirlitið úrskurðaði um stjórnarmenn lífeyrissjóða í stjórn Framtakssjóðsins. Stjórnirnar máttu ekki samkvæmt úrskurðinum ræða við sína stjórnarmenn í Framtaksjóðnum og fá upplýsingar til að marka afstöðu og hvernig stjórnarmaðurinn ætti að meðhöndla ólík mál eftir stefnu eigandans t.d. lífeyrissjóðsins Gildi í einstaka málum.
Hvað hafa eigendur að gera með stjórnarmann í stjórn fyrirtækis eða sjóðs ef þeir geta ekki lagt línurnar fyrir hann hvað sjóðurinn t.d. Gildi lífeyrissjóður vill gera inn í viðkomandi fyrirtæki eða sjóði.
Hvernig á eigandinn að gæta hagsmuna sinna, ef það er ekki hægt í gegnum stjórnarmanninn? Hagsmunirnir geta til dæmis verið aðrir en ofsagróði og háar arðgreiðslur.

Ég greiddi atkvæði með að tillagan yrði samþykkt og tel að lífeyrissjóðirnir eigi að marka sem fyrst skýra stefnu inn á markaðinn, hvernig við viljum að hlutirnir gangi fyrir sig og hvað við viljum í þeim fyrirtækjum sem sjóðirnir eiga hlut í. Eins og rekstur Haga er í dag, með ofsagróðamarkmiðum og hámarks arðgreiðslum til eigenda, verðum við að taka afstöðu til þess hvort við viljum taka þátt í svona fyrirtækjarekstri  með þessum áherslum.  Gróðinn er ekki búinn til nema með okri á okkar félagsmönnum og sjóðfélögum lífeyrissjóðanna.
Lífeyrissjóðirnir eiga ekki að bíða og láta nýja 2007 væðingu koma yfir okkur þegjandi og hljóðlaust.
Þeir eiga strax að senda skýr skilaboð inn á markaðinn, selja hlut sinn í þeim fyrirtækjum sem ekki uppfylla t.d. siðareglur Gildis. Þeir gætu byrjað á Högum og N1 sem fyrstu skilaboð og sjá hvernig stjórnir þessara og annarra fyrirtækja brygðust við þeirri nýju stefnu. Þá væru komin skýr skilaboð til þeirra fyrirtækja sem vilja hafa sjóðina í sínum hluthafahópi.
Lífeyrissjóðirnir eiga líka að marka sér stefnu um hver ásættanlegur hagnaður fyrirtækja eigi að vera og um leið arður til eigenda. Skilaboðin væru til dæmis að sett yrði þak á hagnaðinn og arðgreiðslurnar. Ef afkoman er svona góð væri byrjað á að hækka laun allra starfsmanna fyrir utan þá sem eru á góðu laununum, ef það dugar ekki til að halda aftur af hagnaðnum þá lækki fyrirtækið álagningu og þjónustugjöld.Við verðum að stoppa ofsagróðainnleiðinguna sem virtar alþjóðastofnanir vara við í dag með öllum ráðum. Að verðmætasköpun margra samfélaga sé að flytjast á færri hendur. Verðmætasköpun samfélaganna er ekki aðeins að færast í meira mæli á hendur ofsaríkra aðila, heldur soga þeir þetta fjármagn út úr hagkerfinu án þess að borga réttlátan skatt af því til rekstur samfélaganna. Það sem eftir verður er hætt að duga fyrir samfélagslegum rekstri sumra samfélaga. Samkvæmt mínum upplýsingum er 8 % jarðarbúa með 50 % alls fjármagns í heiminum. Við hin 92 % höfum restina til að rífast um.

Við eigum að nota valdið sem fylgir stöðu okkar í hagkerfinu til að marka það fyrirkomulag sem við viljum hafa. Við eigum að nota þetta vald okkur til hagsældar. Ekki erum við að sjá hagsmunatengda stjórnmálamenn gera það.    Hver hin réttu viðmið í launum til stjórnenda og ásættanlegur arður til eigenda eiga að vera, þarf verkalýðshreyfingin að vinna hratt í að marka stefnu um. Stjórnarmenn launþega í stjórnum lífeyrisjóðanna eiga síðan að fara með hana inn í stjórnir sjóðanna og láta vinna eftir henni.
Standi fulltrúar atvinnurekanda í stjórnum lífeyrissjóðanna í vegi fyrir því að koma þessu í framkvæmd þá verðum við að endurskoða samstarfið við þá.
Stoppum strax í fæðingu bullið frá 2004 til 2008 sem er víða farið að sjást aftur. Ef það verður ekki gert mun það  enda með öðru hruni og skaða fyrir lífeyrissjóðina.
Erum við virkilega svona fljót að gleyma?
Það hefur enginn rétt á að soga ótakmarkaða fjármuni út úr hagkerfi viðkomandi lands og komast í flestum tilfellum undan því að greiða gjöld til samfélagsins af þessum fjármunum. Sú millifærsla er ekki gerð nema með að minnka hlut annarra sem fá minna og þurfa að greiða hærri skatta. Það er aðeins eitt sem þetta leiðir af sér, aukinn ójöfnuð í samfélaginu. Stjórnmálaöflin virðast ekki hafa áhuga eða getu til að taka á þessu og marka skýrar reglur. Frekar enn á mörgum öðrum skaðlegum þáttum í hagkerfinu, eins og t.d. kennitöluflakk sem er að kosta íslenskt samfélagið tugi milljarða á ári. Við höfum vald til að hafa áhrif og mótun á samfélagið með þeim miklu fjármunum sem lífeyriskerfið hefur til umráða. Við eigum að beita því til að stoppa ofsagróðavæðingu hagkerfisins fyrir fáa útvalda, beitum því til góðs til að skapa réttlátt samfélag.

Guðmundur Ragnarsson,
formaður VM-Félags vélstjóra og málmtæknimanna.