25.2.2014

Höldum áfram að settum markmiðum VM

Sáttartillaga Ríkissáttasemjara sem samninganefndir VM ákváðu að senda í kosningu var sett fram þegar stefndi í að við mundum slíta viðræðum við Samtök atvinnulífsins. Þær viðbætur sem fengust í aukningu á orlofs- og desemberuppbætur eru til viðbótar þeim launahækkunum sem voru í kjarasamningnum frá 21. desember 2013. Nú er það undir félagsmönnum VM komið að taka afstöðu og vona ég að við sjáum betri þátttöku í kosningunni nú en var um kjarasamninginn sem var felldur.

Það er mikil ólga í samfélaginu og mörg mikilvæg mál sem brenna á almenningi og því ólíkar ástæður fyrir afstöðu manna til nýgerðra kjarasamninga. Hinsvegar megum við ekki gleyma okkur í  dægurþrasinu, heldur horfa til framtíðar og reyna að byggja upp framtíðarsýn til að vinna eftir. Kjarasamningurinn sem var feldur innihélt atriði sem framtíðarmarkmið VM í kjaramálum byggjast á. Með góðri undirbúningsvinnu og tveimur kjararáðstefnum höfum við lagt grunn að framtíðaraðkomu VM í kjaramálum. Við viljum komast í beinar viðræður við atvinnurekendur í starfgreinum okkar félagsmanna. Við erum þeirrar skoðunar að samræmd launastefna sé gjaldþrota og hún er búin að rústa taxtakerfi félagsmanna VM. Við erum þeirrar skoðunar að svigrúm atvinnugreina til sjálfstæðra kjarasamningagerðar og aukinnar framlegðar, rúmist vel innan hugmynda um að tryggja stöðuleika og lága verðbólgu.
Við höfum fullmótað þessa hugmyndafræði okkar um kröfu um ný vinnubrögð í kjarasamningagerð og við verðum að halda það út að komast að borðinu án hótana um vinnustöðvun.  Aðfarasamningurinn er leiðin okkar að þessum markmiðum. Ef það gengur ekki, er ekkert annað að gera en beita afli til að ná fram okkar markmiðum. Þá getum við allavega sagt að við reyndum friðsömu leiðina og sættum okkur við það að gefa eftir til að komast að borðinu.

Hinsvegar eru blikur á lofti með útspili ríkisstjórnarinnar varðandi Seðlabankann og að draga til baka aðildarumsókn okkar að Evrópusambandinu án þess að ljúka viðræðunum og lofa þjóðinni að taka afstöðu til málsins. Hver sér fyrir sér stöðuleika með íslenska krónu, enga efnahagstefnu og gjaldeyrishöft. EES samningurinn er stórt spurningarmerki, hann getur valdið okkur efnahagslegum hörmungum verði honum breytt, en þær breytingar eru í höndum annarra en okkar íslendinga.
Þetta er farið að minna mann á miðaldir þegar almúganum var haldið í klafa með fáfræði og ritstýringu á upplýsingum og fámenn klerka og kóngaaðall réð ríkjum. Fyrrverandi forsætisráðherra lagði niður Þjóðhagsstofnun vegna staðreynda sem honum voru ekki þóknanlegar. Seðlabankinn ritstýrir ekki upplýsingum til þjóðarinnar að ósk núverandi ríkistjórnar og þá á að breyta yfirstjórninni til að tryggja það. Við erum með ónýta Hagstofur og höfum verið að vinna með ófullnægjandi gögn í undangengnum kjarasamningum. Alþingi er sjaldnast að vinna með rauntölur um efahagsstærðir hagkerfisins enda stjórnun þess í molum í öllu sem snýr að efnahagsmálum.

Dagvinnulaun á Íslandi eru fáránlega lág og úr takt við auð hagkerfisins, því verður að breyta.
Ef fer fram sem horfir verða einu úrræði okkar launamanna að  þvinga fram ásættanlegan hlut af efnahagskökunni með verulegri hækkun dagvinnulauna og verðtryggja þau síðan.
Það er eina leiðin sem við höfum til að fá alla til að axla ábyrgðina á því hvort hér næst stöðuleiki eða ekki. Það er ekki náttúrulögmál að launþegar borgi alltaf brúsann af misheppnuðum tilraunum í efnahagsmálum. Þetta mun reyna á í aðfarasamningnum ef hann verður samþykktur af félagsmönnum VM. Mín skoðun er sú að við eigum að láta á það reyna að fara í aðfarasamninginn og ég trúi því að með áherslu á ný og breytt vinnubrögð muni það skila okkur í bættum kjörum.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.