13.12.2012
Ræða við setningu þings Sjómannasambands Íslands
Ráðherra, ágætu þingfulltrúar og gestir.
Það er mér mikill ánægja að fá að ávarpa þingið. Ég vil byrja á að lýsa yfir ánægju minni með þá góðu samvinnu sem komin er á milli Sjómannasambands Íslands og VM, enda liggja hagsmunirnir okkar víða saman. Góð samvinna er að skila okkur árangursríkari vinnu í þeim málum þar sem við þurfum að beita okkur. Umfjöllun okkar um verðlags- og afurðarverð á fiski skilaði mikilli umræðu um þau mál og hatrömm viðbrögð frá ákveðnum útgerðaraðilum sem vanir eru að drottna yfir sínu. Það hafa hinsvegar verið mér mikil vonbrigði hvað þingmenn og pólitíkin er gjörsamlega lokuð fyrir þessum málum. Mér virðist að pólitísk öfl og þá skipti ekki máli í hvaða flokki menn eru, séu meðvitað að halda hlífðarskyldi yfir því verðlagsmafíufyrirkomulagi sem er á þessum málum hér á landi.
Í grein sem ég skrifaði, og leiddi líkum að því að ekki væri verið að flytja hin raunverulegu afurðarverð til landsins, kallaði ég það efnahagslegt hryðjuverk ef grunur minn reyndist réttur. Ég stend enn við þessi orð mín því engar upplýsingar hafa komið fram, sem sýna fram á annað. Það er engin opinber stofnun að fylgjast með því hvort útgerðarfyrirtæki selji sölufyrirtækjum erlendis (sem þau eiga sjálf) afurðirnar á eðlilegum verðum og skili heildarafrakstri auðlindarinnar heim og því sem réttilega á að koma til skipta hjá sjómönnum.
Fyrirkomulagið er flott fyrir þann sem hefur þetta allt á sömu hendi, veiðar, vinnslu og sölufyrirtæki erlendis. Síðar kemst hann upp með það að skammta út úr ferlinu eins og honum þóknast. Stjórnvöld verða að tryggja rekstur og efla þá stofnun sem á að hafa eftirlit og upplýsingagjöf um þessi mál.
Af hverju þarf að vera trúnaður um verð á fiski á Íslandi?
Hér á landi ríkir trúnaður yfir því þegar útgerðir eru vísvitandi að svindla á sínum starfsmönnum með lágu og röngu skiptaverði á fiski. Ef ekki væri trúnaður yfir þessum upplýsingum þegar útgerðin er staðin að verki, ætti réttilega að dæma þessa aðila fyrir þjófnað eins og gildir á öðrum sviðum samfélagsins. Með öll þessi mál í hendi sér, veiðar, vinnslu, og sölumál undrast ég kröfu LÍÚ um lækkun á launum sjómanna.
Ef horft er yfir allt fyrirkomulagið í sjávarútvegunum virðast mér kröfur LÍÚ endurspegla græðgina sem marga hefur leikið grátt, menn geta ekki stoppað og vilja alltaf meira.
Annað sem hefur verið að þróast í mjög alvarlegan farveg síðustu ár er sá mikli þrælsótti sem búið er að framkalla hjá áhöfnum fiskiskipa, það þorir enginn að segja neitt í dag því skilaboðin hafa verið send mjög skýr, það er enginn ómissandi og auðvita virkar það vel á skipum með góða afkomu. Því miður kom inn á borð til mín í gær enn ein sönnunin á því hvernig þrælsóttin er að virka, vilji útgerðaraðilinn ná einhverju fram.
Stéttarfélög sjómanna hafa barist á móti afnámi sjómannaafsláttarins en orðið lítið ágengt. Hinsvegar er ný birtingarmynd að koma fram hjá mínu félagi, VM, vegna sjómannaafsláttar í öðrum löndum. Mikill uppgangur er í Noregi í olíuiðnaði og í þeim mikla þjónustuflota sem þeir reka um allan heim. Þessi fyrirtæki eru að bjóða vélstjórum góð laun og vinnutíma og margir eru farnir að sækja þangað. Það er ekki vegna atvinnuleysis sem íslenskir vélstjóra sækja þangað og hætta í góðum störfum hér, það er sjómannaafslátturinn í Noregi sem gerið það að verkum að þessir einstaklingar eru að fá mjög hátt hlutfall launa sinna útborgað. Við þessari samkeppni verðum við að bregðast og það hratt. Því á sama tíma og við erum að afnema sjómannaafsláttinn eru nágrannaþjóðir okkar freka að bæta í hann.
Að lokum langar mig að minnast á breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Við breytingar á lögum um stjórn fiskveiða verða þingmenn að horfast í augu við og viðurkenna breytta atvinnuhætti í sjávarútvegi og vinnslu, eyðileggja ekki eða veikja alvöru fyrirtæki í sjávarútvegi. Veiðar og vinnsla er orðin hátækniiðnaður sem verður að halda áfram að þróast og það er okkur nauðsynlegt að ná fram hagræðingu á þessu sviði til að auka hagsæld þjóðarinnar. Rekstrarumhverfi sjávarútvegsins verðu hins vegar að vera opið og byggt á eðlilegri samkeppni, þar sem eðlileg verðmyndun er á fiski og að tryggt sé að afurðarverð séu rétt sem komi til skipta hjá sjómönnum og til verðútreikninga á fiskverði.
Að fara til baka um marga áratugi og fara að stunda fiskveiðar við Ísland á smábátum aftur, er eitthvað sem við verðum að hugsa um. Sumir af þessum smábátum í dag eru með verri aðstöðu fyrir áhöfnina en var á gömlu trévertíðarbátunum.
Sjávarútvegur er alvöru atvinnugrein sem verður að standa sig og hafa hæfa einstaklinga sem kunna sitt fag, mannauðurinn er þessari atvinnugrein lífsspursmál eins og öðrum atvinnugreinum. Þetta er ekki einhver rómatík eins og mér virðist að sumir þingmenn líti á þessa atvinnugrein.
Málefni og verkefni þingsins hjá ykkur núna, mun endurspegla ástandið í samfélaginu, lausa kjarasamninga sjómanna og aðför LÍÚ að launakjörum okkar, þið eigið annasama daga framundan, ég óska ykkur velfarnaðar í þeirri vinnu.
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.