24.11.2012

Ræða á Kjararáðstefnu VM 2012

Ágætu félagsmenn og gestir

Ég vil byrja á því að bjóða ykkur öll velkomin á kjararáðstefnu VM 2012. VM er ungt stéttarfélag á landsvísu sem varð til eftir sameiningu VSFÍ og Félags Járniðnaðarmanna og hefur vegna ytri aðstæðna í samfélaginu ekki haft tækifæri til að mótast eins og ætlun var við sameininguna. Tilgangur stéttarfélags eins og VM er að gæta hagsmuna sinna félagsmanna og standa vörð um kjör þeirra, þess vegna verðum við að leggja alla krafta okkar í þessi verkefni á okkar forsendum.

Að fenginni reynslu og þeirri þróun sem hefur verið í heildarkjarasamningum á vinnumarkaðinum undanfarin ár telur VM að lykillinn að því að geta komið sterkir fram og haft áhrif á áframhaldandi fyrirkomulag þessara mála, sé góður undirbúningur og  málefnaleg rök fyrir þeim breytingum sem við teljum að þurfi að gera. Þess vegna er mikilvægt að hefja þessa vinnu tímanlega og ljúka henni svo með annarri  kjararáðstefnu næsta haust. Þar  munum við  fullmóta okkar framtíðarsýn og stefnu í aðkomu að endurnýjun kjarasamninga 2014.
Félagsmenn VM hafa sýnt ábyrgð undanfarin ár í öllum þeim öldusjó sem hefur gengið yfir.
Sú ábyrgð hefur að mínu viti byggst á skynsemi hins almenna launamanns, ófriður á vinnumarkaði ofan í allt annað hefði valdið ómældu tjóni. Því miður er því ekki haldið mikið á lofti í umræðunni hverjum það er að þakka að við erum þó á þeim stað sem við erum á  í dag, eins og horfurnar voru í upphafi árs 2009.

Við tókum af fullri ábyrgð þátt í samræmdri launastefnu aðila vinnumarkaðarins sem var nýtt í að framkalla miklar launahækkanir á lægstu launatöxtunum og ekki  er verið að amast út í þær réttlátu hækkanir. Með því að hefja strax vinnu við undirbúning endurnýjun kjarasamninga 2014, burt séð frá því hvað muni gerast fram að þeim tíma, telur VM að það verði betur tryggt að hagsmunum og réttmætum kröfum verði komið tímalega á framfæri. Þannig munu ólíkir hópa innan félagsins geta unnið sína heimavinnu og komið fram með sínar áherslur og framtíðarsýn inn í umræðuna.

Þetta fyrirkomulag getur hins vegar ekki haldið áfram til langframa, að framkalla launahækkanir þeirra lægst launuðu á kostnað þeirra sem eru hærri í launum, meðal annars vegna menntunar.  Þar verða að koma önnur úrræði.

Við teljum að inn í samræmda launastefnu við kjarasamningsgerð verði að koma svigrúm, eigi hún að geta haldið áfram. Miðstýring SA í kjarasamningagerð er orðin ógnun við eðlilega kjaraþróun á vinnumarkaðinum. Við stöndum frammi fyrir öflugum samtöku eins og SA og LÍÚ sem hafa mjög sterk tök í okkar samfélagi og ekki er allt heilagt sem þau segja. Þau liggja ekkert á því að beita afli sínu eins og við þekkjum. Því er það eitt af okkar verkefnum í þeirri vinnu sem við erum að hefja að skoða þær leiðir sem við höfum gegn þessum aðilum. Auðvitað getur niðurstaðan orðið sú að við sjáum okkur ekki fært að fara einir fram og þá verður bara svo að vera slag, eða að við getum beitt áhrifum okkar á að við fáum svigrúm til að koma okkar skoðunum og aðferðafræði fram innan heildar kjarasamninga, verði það leiðin sem farin verður 2014. Þó svo að ýmsar blikur séu á lofti þá verðum við að móta okkar framtíðarsýn og fara fullir sjálfstrausts fram með það sem við teljum að sé rétt og sanngjarnt fyrir okkur. Við teljum að áratuga verðlagning  starfstétta okkar félagsmanna sé vitlaus inn í hagkerfið og hana þurfi að laga.

Við berum okkur mikið saman við hinar norðurlandaþjóðirnar og það er hollt fyrir okkur að skoða hvernig aðrir hafa gert hlutina. Þess vegna töldum við það skynsamlegt að fá til okkar aðila frá öðrum löndum til að halda erindi og gefa félagsmönnum svigrúm til að spyrja þá um það sem þeim liggur á hjarta eftir erindin. Erindi þeirra Eriks Back Wiber frá Dansk Metal og Odd Rune Malterud frá norska vélstjórafélaginu verða örugglega fróðleg og vonandi grunnur að framtíðar samvinnu okkar við þessi systurfélög.

Að lokum vill ég sérstaklega bjóða velkomna félaga okkar frá Félagi Málmiðnaðarmanna á Akureyri og þakka þeim fyrir að taka þátt í þessari vinnu með okkur, við höfum einnig boðið þeim að taka þátt í þeirri hópavinnu sem mun verða fram að ráðstefnunni í október 2013. Framkvæmdastjóra SA, Vilhjálmi Egilssyni og Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ vill ég þakka fyrir að koma og taka þátt í þessu með okkur.

Umræðuna um  samræmdu launastefnuna, kosti hennar og galla og hvort svigrúm er innan hennar til breytinga á kjörum starfstétta verðum við að taka tímalega. Niðurstaðan úr þeirri umræðu mun marka þá niðurstöðu sem verður hjá VM næsta haust. Síðan verður það okkar að leggja mat á það hvað er skynsamlegast fyrir okkur þegar stundin rennur upp, það hafa allir val um að fara fram á sínum forsendum.

Sú vinna sem við erum að leggja af stað með er upphaf að einhverju sem ekki er séð fyrir endann á og undir okkur komið hvernig til tekst, gangi okkur vel í þeirri vinnu sem framundan er.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM