24.9.2012

Átakavetur

Komandi vetur mun væntanlega verða mikill átakatími í íslensku samfélagi, kosningar næsta vor og afstöðu þarf að taka til forsenduákvæða kjarasamninga í janúar 2013. Það er erfitt að leggja heilstætt mat á stöðuna í samfélaginu eins og hún er í dag eftir hrunið 2008, því mjög misvísandi upplýsingar eru birtar um ólíka málaflokka. Skuldavandi margra virðist vera mjög slæmur og vandséð með lausnir. Vanskil eru í hámarki og jafnvel farið að sjá að greiðsluvilji fólks er ekki til staðar. Yfirdráttalán einstaklinga komin yfir það sem var 2007, þó ýmsir vilji gera lítið úr þessari mælingi og hvað hún sýnir. Loforð voru gefin um lausnir á skuldavandanum án þess að fyrirséð væri hvaðan peningarnir ættu að koma til að leysa hann. Samfélagið hefur ekki undan að taka við patentlausnum frá sjálfskipuðum frelsurum sem síðan hverfa jafn óðum með lausnirnar þegar krufið er til mergjar hverjir eiga að borga fyrir þær.

Sá hópur einstaklinga sem sannarlega fóru fram úr sér og voru margir hverjir komnir í þrot vegna óhóflegrar einkaneyslu 2006 og 2007 er lofað að vera inni í þeim hópi sem sannarlega varð fyrir forsendubresti og gera allar lausnir erfiðari og miklu dýrari.  Sú mikla sókn til atvinnuuppbyggingar sem lofað var er koðnuð niður í prinsipp deilum einstakra þingmanna og ráðherra. Minnist alltaf sögunar um að menn geti dáið í eigin prinsippum ef ekki er farið frá þeim, þegar hættan og afleiðingarnar blasa við. Almennt launafólk sem er að borga reikninga og kaupa í matinn skilur ekki framsettar tölur um að kaupmáttur hafi aukist undanfarin misseri. Verðbólguógning er alltaf hinu megin við hornið, með þeim skelfilegu afleiðingum sem henni geta fylgt. Gengismálin eru á óljósri leið sem erfitt er að átta sig á hvert er verið að stefna eða hvaða lausnir eru í sjónmáli með blessaðan gjaldmiðilinn. Ekki er farið að sjá fyrir endan á endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða og ótrúleg krafa LÍÚ á hendur sjómönnum vegna aukins kosnaðar við útgerð hefur verið lögð fram.

Þó aðeins sé verið hér í upphafi að stikla á stóru um þau mörgu vandamál sem við stöndum frammi fyrir þýðir lítið annað en horfa til framtíðar með bjartsýni og reyna að leggja grunn að ákveðnum markmiðum sem stefna skal að. Það er það sem við hjá VM ætlum að gera í kjaramálum okkar félagsmanna og verðlagningu á okkar störfum inn í hagkerfið. Við eigum ekki að sætta okkur við stöðuna, heldur breyta áratuga gömlu mati á verðlagningu okkar starfgreina. Það er eitthvað mikið að í hagkerfi sem ekki viðurkennir verðmæti starfa sem halda samfélaginu gangandi og skapa raunveruleg verðmæti eins og vél- og málmtæknin gerir í okkar samfélagi. Við eigum ekki að sætta okkur við hvernig t.d. fjármálageirinn getur verðlagt sig og sogað til sín af verðmætasköpum hagkerfisins. Ef við tökum ekki málin í okkar hendur og förum fast og ákveðið fram með það sem við teljum rétt, mun engin gera það fyrir okkur.
Ég hef óbilandi trú á því verkefni sem stjórn félagsins hefur ákveðið að hefja núna í nóvember, en það er að hefja undirbúning að endurnýjun kjarasamninga 2014 og mótun framtíðar kjarastefnu félagasins.

Kynning á þessu verkefni og dagskrá fyrir kjararáðstefnuna er í blaðinu og forsendan fyrir því að þetta heppnist er að félagsmenn taki þátt í verkefninu og leggi sitt að mörkum. Takist okkur þetta sem ég efast ekki um, munum við standa mjög sterkir á eftir og fara langt í að ná þeim markmiðum sem við ætlum að setja okkur.

Kveðja,
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM