8.6.2012
Hvar er nýja Ísland?
Framtakssjóður Íslands:
Það sem leitað hefur mest á huga minn undanfarið ár, þegar fram hafa komið hin ýmsu mál í samfélaginu, hvar hið nýja Ísland er, sem átti að skapa upp úr efnahagshruninu. Sett voru fram göfug markmið um bætt siðferði og starfsreglur, allt opið, ekkert að fela.
Það er eðlilegast að ég taki dæmi úr því umhverfi sem ég starfa í og er tengdur, sem dæmi um hvernig hlutirnir mistókust og enginn virðist geta útskýrt hvað gerðist, en það er Framtakssjóður Íslands (FSÍ). Þar lögðu menn af stað fullir eldmóðs að leggja fram fjármuni lífeyrissjóða í uppbyggingasjóð til að flýta fyrir uppbyggingu atvinnulífsins. Frá upphafi var honum ætlað að vera fjárfestingasjóður þeirra lífeyrissjóða sem að honum stóðu um tiltekin verkefni og samkvæmt þeirri fjárfestingastefnu sem honum yrði sett. Var beinlínis gert ráð fyrir því að hann fjárfesti í ráðandi hlutum í fyrirtækjum til að gæta hagsmuna sinna.
Með kaupum FSÍ á eignarhaldsfélaginu Vestia ehf. af Landsbankanum tapaði sjóðurinn sjálfstæði sínu og fór frá öllum upphaflegu markmiðunum. Ég hef ekki enn náð að skilja hvernig allt þetta gerðis og hverjir tóku allar ákvarðanir um það og hverjir stjórnuðu þeim. Allavega virðast þeir sem lögðu peninga í sjóðinn lítið hafa haft um það að segja hvernig málin þróuðust og hafa en minna um það að segja í dag. Til að rifja upp göfug markmið sjóðsins fylgja hér hluti úr samþykktum hans sem en eru í gildi.
FJÁRFESTINGASTEFNA
4.1 Stjórn FSÍ setur sjóðnum fjárfestastefnu að fenginni umsögn ráðgjafaráðs, sbr. grein 16.
4.2 Í starfsemi FSÍ verður lögð áhersla á að fylgja leiðbeiningum um góða stjórnarhætti fyrirtækja. Við ákvarðanir um fjárfestingar í hlutafélögum verður litið til reglna OECD um stjórnarhætti fyrirtækja og reglna Viðskiptaráðs Íslands, Kauphallar Íslands og Samtaka atvinnulífsins um stjórnarhætti fyrirtækja. Þá mun einnig verða litið til nýútkominna leiðbeininga um stjórnarhætti opinberra fyrirtækja sem gefin hafa verið út af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq OMX Ísland og Samtökum atvinnulífsins. Ennfremur verður horft til reglna ASÍ um samfélagslega ábyrgar fjárfestingar og settar reglur um innri starfsemi.
4.3 FSÍ mun gegna eigendaskyldum sínum með virkum hætti og koma ábendingum um rekstur og stefnu fyrirtækja auk bættra stjórnarhátta sem sjóðurinn er hluthafi í á framfæri á stjórnarfundum og hluthafafundum og með beinum samskiptum við stjórnendur viðkomandi fyrirtækja.
4.4 Reglur stjórnsýslulaga um hæfi stjórnarmanna munu gilda um aðkomu að málsmeðferð einstakra mála og ákvarðanatöku í stjórn FSÍ. Það felur m.a. í sér að stjórnarmenn munu ekki taka þátt í umræðum eða ákvörðunum á stjórnarfundum FSÍ um málefni fyrirtækja þar sem þeir hafa hagsmuna að gæta. FSÍ mun leggja áherslu á að sama fyrirkomulag verði viðhaft eftir því sem við á í stjórnum þeirra fyrirtækja þar sem sjóðurinn er hluthafi.
4.5 FSÍ mun leggja áherslu á að gegna hlutverki sínu sem fagfjárfestasjóður með ábyrgum hætti og leggja í því sambandi til grundvallar mikilvæg samfélagsleg gildi auk þess sem rík áhersla verður lögð á góða stjórnarhætti með það að markmiði að tryggja að hagsmunum sjóðsins sem fagfjárfestis sé sem best borgið.
4.6 Á grundvelli þessa mun FSÍ setja sér hluthafastefnu sem gerð verður grein fyrir opinberlega. Megininntak hennar verður að sjóðurinn er áhrifafagfjárfestasjóður sem hefur ásamt góðri arðsemi af hlutabréfaeign sinni það að markmiði að stuðla að vexti og viðgangi þeirra fyrirtækja sem hann fjárfestir í. Enn fremur verður horft til reglna Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, en nokkrir íslenskir lífeyrissjóðir eiga aðild að reglunum, sem taka til umhverfislegra og félagslegra þátta í starfsemi fyrirtækja auk góðra stjórnarhátta. Þá mun sjóðurinn setja sér almenn viðmið varðandi umhverfismál sem og félagslega ábyrgð og mannréttindi.
Hver stýrir öllum þeim fjármunum sem lífeyrissjóðirnir lögðu í FSÍ er mér ekki ljóst í dag, en fyrrverandi framkvæmdastjóri sjóðsins virðist hafa náð að koma ár sinni vel fyrir borð í stjórnum þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfesti í.
Eitt af því sem gerðist í ferlinu varðandi stjórn sjóðsins var að þeir illa menntuðu stjórnarmenn sem stýrðu þeim peningasjóðum ( lífeyrissjóðunum) sem minnst sköðuðust í hruninu, voru ekki hæfir að stýra þessum litla hluta af peningum lífeyrisjóðanna. Á sjóðinn vildu menn setja háklassa stimpil.
Varð því að kalla inn háklassa stjórnamenn og borga þeim í stíl eins og gert var á síðasta aðalfundi sjóðsins. Vonandi mun sagan ekki endurtaka sig þarna með þessa háklassa stjórnarmenn eins og varð í hruninu, okkar vegna sem komum til með að nota lífeyrissjóðina okkur til framfærslu á efri árum.
Við megum ekki vera að fela það sem hefur mistekist hjá okkur, heldur halda því á lofti og læra strax af mistökunum.
Ég að bæta við yfirlýsingu frá stjórn VM um FSÍ, tel að það sé góð áminning að rifja þessi mál upp, en vonandi hefur stjórn VM ekki rétt fyrir sér varðandi fjárfestingar sjóðsins
Yfirlýsing frá stjórn VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna.
Stjórn VM - Félags vélstjóra og málmtæknimanna lýsir yfir furðu sinni á fjárfestingum Framtakssjóðs Íslands og telur þær fara langt fram úr samþykktum sjóðsins.
Stjórn VM telur að til greina komi að lífeyrissjóðir félagsmanna VM dragi sig út úr Framtaksjóðnum. Ekki hafi verið farið eftir þeim verklagsreglum og samþykktum sem stjórnir lífeyrissjóða okkar félagsmanna gengu útfrá þegar þær samþykktu að leggja fjármuni í sjóðinn.
Stjórn VM telur að það skaði Framtakssjóð Íslands og geri hann ótrúverðugan að tengjast banka eða bönkum.
Stjórn VM lýsir yfir áhyggjum sínum af því að í framhaldi af þessum fjárfestingum verði settur þrýstingur á lífeyrissjóðina að koma með fjármagn inn í fyrirtæki sem Framtaksjóðurinn fjárfestir í til að verja fjárfestingar hans.
Það er skoðun stjórnar VM að til að hægt verði að byggja upp traust, verði að tryggja gegnsæi og að farið verði eftir samþykktum og lögum í samfélaginu.
Bónusar í bankakerfinu:
Annað sem ég næ ekki að skilja, en það eru bónusar í bönkunum sem komnir eru í umræðuna og eru væntanlega að koma aftur.
Við erum með bankakerfi sem rekið er með svipuðum samkeppnisstuðlum og voru þegar við höfðum dönsku einokunarverslunina. Reyndar á það við um mörg önnur svið viðskiptalífsins.
Bankarnir framkölluðu bókhaldsbrellugróða í fyrra að því að sagt er, til að framkalla gróðann fyrir það ár. Í ár er vaxtamunurinn keyrður upp í brjálaðri samkeppni til að framkalla hagnaðinn sem á að vera á þeim í ár. Umhyggja fyrir viðskiptavinunum er sýnd með því að leiða þá í gildru breytilegra vaxta sem mun hafa skelfilegar afleiðingar ef íslensk hagstjórn svíkur ekki. Að það sé til einhver grundvöllur fyrir bónusum í sjálftökukerfi þar sem enginn þarf að sýna getu sýna, nema senda reikninginn á viðskiptavininn og hann hefur ekkert val til að fara annað í allri hinni svokölluðu samkeppni, næ ég ekki að skilja. Enda vanséð hvar bankakerfið er að taka mikla áhættu hér innanlands gagnvart sínum viðskiptavinum. Þegar mest var lánað og bónusarnir voru hvað mestir var það vegna sjálftöku eigenda þeirra, ekki út frá faglegum sjónarmiðum á hagkvæmni fjárfestinganna sem lánað var til.
Sögusagnir eru komnar um það að allt sé á fleygiferð í fjármálakerfinu inn á sömu braut og fyrir hrun, enda ekkert óeðlilegt við það að menn vilji komast í fyrri fríðindi sem þeir fengu að kynnast, sem fyrst, það er mannlegt. Er ekki kominn tími á það að stjórnvöld setji lög um það hvað fjármálakerfið getur sogað mikið fjármagn óheft út úr hagkerfinu, sem þýðir ekkert nema lakari lífskjör fyrir almenning í landinu. Enda kom það fram í umsögnum bankana um stjórn fiskveiða og veiðigjöld t.d. að þeir vilja hafa sem mesta skuld á óveiddum fiski í sjónum, svo að sem mest af afrakstri sjávarútvegsins komi til þeirra í formi vaxta og afborganna.
Það hefur ekkert breyst og það virðast engin pólitísk öfl vera í sjónmáli til að breyta einu eða neinu.
Allar gömlu hagsmunaklíkurnar á fullu að passa sitt og engu má breyta.
En eigum við samt ekki að halda áfram að láta okkur dreyma um nýja Ísland, það verða allir að eiga sýna framtíðarsýn og drauma.
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM