10.10.2022

Akkur - úthlutun styrkja 2021

Akkur, styrktar- og menningarsjóður VM, úthlutar árlega fjárstyrkjum til rannsóknarverkefna, brautryðjenda- og þróunarstarfa, menningarstarfsemi og listsköpunar. Markmið og verkefni sjóðsins er að styrkja m.a. rannsóknir og annað sem kemur félagsmönnum VM til góða við nám og störf  til lands og sjávar, auk þess að styrkja brautryðjenda- og þróunarstarf sem hefur samfélagslegt gildi svo og menningarstarfsemi og listsköpun. Að þessu sinni var úthlutað styrkjum að upphæð kr. 2.530.000

 

Eftirtaldir hlutu styrk að þessu sinni:

 

Styrkur til menningarstarfsemi og listsköpunar.

Sönglög með nýjum blæ – Magnea Tómasdóttir, kr. 330.000

Tónleikar ætlaðir sem verða haldnir fyrir fólk sem sækir sérhæfðar dagþjálfanir fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma. Margar rannsóknir sýna að tónlist í allri sinni mynd hefur mjög góð áhrif á fólk með heilabilunarsjúkdóma. Tónleikarnir eru haldnir að degi til og verður viðkomandi stofnunum boðið að koma sér að kostnaðarlausu. Boðsgestir verða um 150 manns með starfsfólki.

Obbosí eldgos – Halaleikhópurinn kr. 600.000

Íslenskur farsi eftir Sigrúnu Valbergsdóttur sem einnig leikstýrir. Um er að ræða frumsýningu á nýju verki, sem gerist á sveitabæ þar sem rekið er kúabú samhliða ferðaþjónustu. Leikarar eru 10 annað starfsfólk 5. Æfingar eru hafnar og er frumsýning áætluð 3. febrúar 2023.

Muggur og tónlistarævintýrið „Dimmalimm“ – Pamela De Sensi kr. 1.000.000

Dimmalimm er án efa eitt ástsælasta ævintýri þjóðainnar og hafa fjölmargar kynslóðir kynnst sögunni og myndskreytingum sem eru tímalausar. Árið 2024 verða 100 ár frá andláti Muggs og til að minnast þessara tímamóta verður gefin út ný útgáfa af þessu ævintýri. Efni sögunnar fær aða halda sér og einnig myndskreytingarnar en sagan er sett upp sem tónlistarævintýri, þar sem tónlist og sögumaður taka unga áheyrendur með sér í ferðalag. Bók og tónlist verða gefin út saman á vegum Töfrahurðar tónlistarútgáfu.

Ritsmiðja fyrir skúffuskáld – Auðlín ehf. kr. 500.000

Ásdís Káradóttir MA í ritlist, BA í bókmenntafræði og Sæunn Þórisdóttir MA í hagnýtri ritstjórn og útgáfu, BA í bókmenntafræði hafa þróað námskeið fyrir almenning með það að markmiði að hvetja til sköpunar og skrifa. Í ritsmiðjunni verða gerðar tilraunir með ritun smáverka af ýmsu tagi. Ýmis tæki og tól verða kynnt til sögunnar. Einnig verður ritstjórnarferli kynnt og þátttakendum gefinn kostur á að skila stuttum texta og fá hann til baka yfirfarinn af ritstjóra.

Hreyfislökun: hádegistímar fyrir fullorðna – Anna Dúa Kristjánsdóttir kr. 100.000

Anna Dúa lærði hreyfimeðferðarfræði í Þýskalandi og starfaði við fagið þar í landi þangað til í sumar er hún kom heim á landið kalda. Hún þekkir af eigin raun hvernig það er að vera fastur og stífur í eigin streitu og vill í hreyfislökunartímum kenna þér að sleppa og finna flæðið. Tímarnir byggja m.a. á vinnu Fe Reichelt en hún sótti innblástur til kínverskrar heimspeki. Tímarnir fara fram alla þriðjudaga og miðvikudaga í október.