27.9.2021

Færðu nemendum í grunndeild málmiðnaðar vinnugalla að gjöf

Á dögunum mætti Jóhann Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri, í heimsókn á málmiðnbraut VMA og færði öllum fyrsta árs nemum heilgalla að gjöf. Að gjöfinni standa Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri, Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM) og Félag iðn- og tæknigreina (FIT). 

Jóhann segir að bæði VM og FIT séu landsfélög og því hafi honum þótt eðlilegt að leita til þeirra um hvort þau væru tilbúin að taka þátt í að fjármagna vinnufatnaðinn á nemendur grunndeildar málmiðnbrautar VMA í samstarfi við Félag málmiðnaðarmanna Akureyri. Það hafi verið auðsótt mál og þar með hafi málið verið í höfn. „Afstaða mín er sú að fyrst ríkið er ekki að leggja nemendum þetta til, þá gerum við félögin það saman í staðinn. Samstarf félaganna í þessu skyni er skýrt dæmi um að við viljum í sameiningu leggja okkar af mörkum með hagsmuni nemenda að leiðarljósi,“ segir Jóhann og bætir við að það sé tvímælalaust hagur félaganna að ungt fólk horfi til iðngreina sem góðan valkost. „Vegna þess að iðnmenntun er þjóðfélaginu mjög mikilvæg. Það hafa átt sér stað byltingarkenndar breytingar í þessum iðnaði, tækninni hefur fleygt fram og er áfram hraðbyri að fleygja fram og starf málmiðnaðarmanna hefur því tekið töluverðum breytingum frá því sem áður var. Og launakjörin í málmiðnaði og tengdum greinum eru almennt mjög góð. Það nám sem VMA býður upp á er mjög gott og ofan á það geta menn svo byggt síðar, kjósi þeir svo. Við höfum líka verið að benda nemendum og forráðamönnum þeirra á að til viðbótar við grunnnámið geti nemendur tekið stúdentspróf og standi þannig vel að vígi,“ segir Jóhann.

Jóhann hefur fyrir hönd Félags málmiðnaðarmanna Akureyri verið ötull við að leggja málmiðnbraut VMA lið með ýmsum hætti á undanförnum árum. Hann segir sjálfsagt mál að styða við skólann eins og hægt sé og hann nefnir í því sambandi að ánægjulegt sé og mikilvægt hversu góðum tengslum kennarar við málmiðnbraut skólans haldi við fagfélagið og atvinnulífið. Það sé allra hagur að menn vinni saman að því að styrkja og efla grunninn, menntunina.

„Það vantar að þeir sem eru eldri komist inn í þetta nám og við höfum rætt við menntamálaráðherra um að leysa úr þeim hlutum. Á okkar svæði er einfaldlega vöntun á menntuðu starfsfólki í þessari iðngrein og þess vegna er svo mikilvægt að við styðjum vel við og styrkjum menntunina hér í heimabyggð. Iðnnám kostar vissulega meiri fjármuni í byrjun en á hinn bóginn skilar það sér miklu fyrr til samfélagsins. Ég held að fólk sé smám saman að opna augun fyrir þessu og samtöl okkar við núverandi menntamálaráðherra gefa okkur vonir um að við séum á réttri leið,“ segir Jóhann Sigurðsson.

Á þessum myndum er Jóhann með annars vegar Sigríði Huld Jónsdóttur skólameistara og Herði Óskarssyni brautarstjóra málmiðnbrautar VMA og hins vegar skólameistara, brautarstjóra og nokkrum grunndeildarnemum – að sjálfsögðu í nýju vinnugöllunum með lógóum þeirra þriggja félaga sem standa sameiginlega að þessari góðu gjöf.