1.10.2019

Helgi Arnlaugsson heiðursfélagi VM er látinn

Helgi Arnlaugsson fæddist 17. mars 1923 og lést þann 15. september 2019. Útför hans fór fram frá Lindakirkju 23.september sl.

Á unglingsárunum vann Helgi hjá föður sínum sem rak hænsna- og kúabú í Haga við Hofsvallagötu. Hann lærði skipasmíði hjá Magnúsi Guðmundssyni og lauk þar námi 1945.

Helgi starfaði við Landssmiðjuna 1946-47, var skipasmiður hjá Daníelsslipp frá 1947 og síðan hjá Slippfélagi Reykjavíkur um langt árabil. Hann var starfsmaður Málm- og skipasmíðasambandsins og síðan Samiðnar árin 1973-1994. Helgi sat í stjórn Sveinafélags skipasmiða um langt árabil og var formaður þess félags 1954-1984. Helgi var heiðursfélagi Samiðnar frá 1994, heiðursfélagi Félags járniðnarmanna og var sæmdur gullmerki félagsins.

VM þakkar Helga störf hans í þágu Verkalýðshreyfingarinnar og sendir eftirlifandi eiginkonu hans og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.