26.2.2019

Kjaradeilu iðnaðarmanna vísað til Ríkissáttasemjara

Í gær mánudaginn 25. febrúar tók samninganefnd iðnaðarmanna þá ákvörðun að vísa kjaradeilu iðnaðarmanna og SA til ríkissáttasemjara. 

Í morgun fór Guðmundur Helgi Þórarinsson formaður VM ásamt Benóný Harðarsyni starfsmanni kjaradeildar VM til ríkissáttasemjara og færði henni vísun VM. Það er von félagsins að með því að vísa deilunni til ríkissáttasemjara þá verði hægt að ýta málum áfram af meiri krafti. 

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari tók vel á móti formanni VM, bauð upp á kaffisopa og fór yfir stöðu mála óformlega.

Eftir þetta óformlega spjall var komið við á skrifstofu SA og Halldóri Benjamín afhent afrit af vísun VM til ríkissáttasemjara. 

Samningar hafa verið lausir í næstum tvo mánuði í dag, var það einróma samþykkt á fundi samninganefndar VM þann 20. febrúar að vísa deilunni til ríkissáttasemjara í þessari viku.