10.5.2017

Akkur-úthlutun 2017

Akkur, Styrktar- og menningarsjóður VM, úthlutar fjárstyrkjum til rannsóknarverkefna, brautryðjenda- og þróunarstarfa, menningarstarfsemi og listsköpunar. Markmið og verkefni sjóðsins er að styrkja m.a. rannsóknir og annað sem kemur félagsmönnum VM til góða við nám og störf til sjós og lands, auk þess að styrkja brautryðjenda- og þróunarstarf sem hefur samfélagslegt gildi svo og menningarstarfsemi og listsköpun.
Í ár voru veittir 6 styrkir og fór afhending þeirra fram í gær, þriðjudaginn 9. maí kl. 17:00 í VM húsinu Stórhöfða 25, 2. hæð.

Eftirtaldir hlutu styrk vegna menningarmála og listsköpunar:

Kennarinn.is - Þó líði ár og öld – kr. 250.000,-

Þann 1. desember 2018 eru 100 ár síðan Sambandslögin tóku gildi og Ísland viðurkennt sem fullvalda og frjálst ríki. Markmiðið er að setja saman 32 blaðsíðna námsefnispakka fyrir nemendur á miðstigi þar sem farið er í gegnum aðdraganda samningsins, hvað lögin þýddu fyrir íslensku þjóðina og þá hápunkta sem verið hafa í sögu þjóðarinnar til dagsins í dag. Efnið verður samið með hliðsjón af aðalnámskrá grunnskóla í íslensku, stærðfræði og samfélagsfræði og útbúið sem þrautatengt afþreyingarefni með sögulegu ívafi.

Guðmundur Lýðsson – Saga Rafstöðvar Varnarliðsins - kr. 500.000,-

Rafstöð Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli var starfrækt frá komu Varnarliðsins 1951 til ársins 2006. Nú eru komnar fram hugmyndir um að rífa þessar byggingar og þá fellur í gleymsku þessi þáttur þeirrar atvinnustarfsemi sem rekin var á Keflavíkurflugvelli þegar her Bandaríkjanna var hér á landi. Fyrirhugað er að skrá þessa sögu í máli og myndum.


Tinna Hrafnsdóttir– Helga - kr. 500.000,-

HELGA var valin inn á Short film Corner á kvikmyndahátíðinni í Cannes sem er mikill heiður, og þykir afar líklegt að myndin muni eiga góða möguleika á að vera valin inn á fleiri virtar erlendar kvikmyndahátíðir. Slíkt er afar mikilvægt bæði fyrir leikstjórann og myndina, að geta fylgt henni eftir um heiminn og þá um leið kynnt Íslenska kvikmyndagerð sem hefur verið að vaxa mikið og hratt upp á síðkastið.


Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir – Brautryðjendur 2 – kr. 450.000,-

Verkefnið Brautryðjendur tvö fjallar um þrjá óperusöngvara. Stefán Íslandi tenór, Guðmundu Elíasdóttur mezzósópran, Ingveldi Hjaltested sópran. Umræddir listamenn voru meðal þeirra íslensku óperusöngvara, sem ruddu brautina hér á landi, hvað óperusöng snertir. Brautryðjendur tvö er nokkurs konar framhald á verkinu Brautryðjendur sem Akkur veitti styrk til 2016. Sömu listamenn flytja verkefnið en fjallað er um aðra óperusöngvara en í fyrra verkefninu.

Pamela De Sensi Kristbjargardóttir – Gói og stórsveit Reykjavíkur – kr. 550.000,-

Gefa á út myndskreytta barnabók með hljóðdisk. Bókin er sjálfstætt framhald sögunnar „Pétur og Úlfurinn“ Þessi nýja saga er skrifuð af Pamelu De Sensi og Hauki Gröndal, er staðfærð yfir á Ísland og semur Haukur nýja tónlist í jazzstíl. Þessi nýja tónlist, líkt og upprunalega útgáfan hentar vel til að kynna börnum tónlist og fylgir útgáfunni geisladiskur þar sem sögumaður les og hljómsveit spilar.


Eftirtaldir hlutu styrk til rannsókna, brautryðjenda- og frumkvöðlastarfs:

Birgir Grímsson – Ný tegund hljóðmön fyrir borgarumhverfi framtíðarinnar. kr. 750.000,-

VERSATILE er ný tegund hljóðmanar sem svarar kröfum nútíma samfélags um sveigjanleika aðlögunarhæfni, betri hljóðvörn, betri loftgæði, minni rekstarkostnað og skynsamlegri meðferð almannafjármuna. Markmið verkefnisins er að vinna að undirbúningi að gerð viðskiptaáætlunar fyrir Stökkbretti ehf sem halda mun utan um áframhaldandi vöruþróun, vernd, sölu og markaðssetningu á rétthafaleyfum til annara landa. Nú þegar hefur verið sótt um hefðbundið tæknilegt einkaleyfi.