6.2.2014
Ályktun stjórnar VM vegna málefna lífeyrissjóða
Vegna þeirrar miklu umræðu sem hefur átt sér stað í samfélaginu um ofurlaun, bónusa og
fríðindi hjá stjórnendum fyrirtækja sem lífeyrissjóðirnir hafa fjárfest í, vill stjórn
VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna, beina þeim tilmælum til stjórnarmanna í lífeyrissjóðum
félagsmanna VM, að þeir grípi strax til róttækra aðgerða og láti viðkomandi sjóð selja hlutabréf
í þeim fyrirtækjum sem um ræðir.
Stjórnin vill t.d. minna á Samskipta- og siðareglur stjórna Gildis og Sameinaða lífeyrissjóðsins
sem jafnframt hafa innleitt reglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar.
Eftirfarandi er úr Samskipta- og siðareglum Gildis:
Sjóðurinn fjárfestir í samfélagslega ábyrgum fyrirtækjum sem fylgja lögum og reglum samfélagsins
og viðurkenndum viðmiðum um góða stjórnarhætti og viðskiptasiðferði. Sjóðurinn fjárfestir ekki
í fyrirtækjum sem ofbjóða siðferðisvitund almennings með ósanngjarnri framkomu gagnvart
starfsfólki s.s. varðandi kjör og stjórnunaraðferðir eða með óhófi í launamálum stjórnenda sem
og öðrum rekstrarþáttum. Stjórn tekur afstöðu til slíkra mála sem upp koma og ákveður hvort
selja eigi hlut sjóðsins í ljósi þeirra viðbragða sem athugasemdir við óeðlilega starfshætti fá.
Óábyrg vinnubrögð mega ekki verða til þess að vekja upp andúð á lífeyrissjóðakerfinu eða
stjórnum þess. Þvert á móti eiga stjórnirnar að vera mjög virkar og stoppa allt sem ofbýður
almennri skynsemi. Stjórnarmenn eiga að beita áhrifum sínum í að tryggja siðferði í þeim
fyrirtækjum sem sjóðirnir eiga í og marka um leið framtíðar fyrirkomulag þessara mála á
fyrirtækja- og fjármálamarkaði.
Stjórn VM vill vekja athygli á að stjórnarformaður Gildis sem er fulltrúi Samtaka atvinnulífsins
situr í stjórnum margra fyrirtækja, sem veikir stöðu formannsins.
Þetta skaðar ímynd Lífeyrissjóðsins Gildis að mati stjórnar VM.
f.h. stjórnar VM,
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM