10.1.2014
Félagsfundur VM í Reykjavík
VM, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, hóf kynningarátak vegna nýgerðs kjarasamnings
við Samtök atvinnulífsins með félagsfundi í Reykjavík þann 9. Janúar s.l.
Aðrir kynningarfundir verða sem hér segir:
á Akureyri mánudaginn 13. janúar kl: 20:00 að Skipagötu 14, 5. Hæð
á Selfossi þriðjudaginn 14. janúar kl. 20:00 að Hótel Selfoss
Fundurinn í Reykjavík var sendur beint út á heimasíðu félagsins.
Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum.
Ályktun félagsfundar VM í Reykjavík
Félagsfundur VM - Félags vélstjóra og málmtæknimanna, þann 09. janúar 2014 að Stórhöfða 25,
fordæmir þær vöruverðshækkanir og hækkanir á opinberri þjónustu ríkis og sveitarfélaga sem
nú þegar hafa komið fram og eru í farvatninu.
Ein helsta forsenda kjarasamninga sem gerðir voru 21. desember er að verðbólga verði lág
og kaupmáttur í landinu aukist.
Til þess að þetta megi takast er mikilvægt að opinberir aðilar og verslunar- og þjónustufyrirtæki
standi í lappirnar og haldi aftur af verðhækkunum.
Sveitarfélög víðs vegar um landið hafa brugðist vel við kallinu. Nú berast hins vegar váleg tíðindi
af fyrirtækjum og opinberum aðilum sem tilkynnt hafa verðhækkanir og eru þar með að vinna
gegn markmiðum þess kjarasamnings sem undirritaður var fyrir jól.
Þessi fyrirtæki ögra ekki bara launafólki í landinu heldur eins þeim stöðugleika og
kaupmáttaraukningu sem er leiðarljós kjarasamningsins.
Fundurinn krefst þess að þær verðhækkanir sem nú þegar eru komnar fram, verði dregnar
til baka. Jafnframt hvetur fundurinn félagsmenn VM til að fylgjast með verðhækkunum og
sniðganga þau fyrirtæki og verslanir sem grípa til hækkana.
Fundurinn lítur þannig á að verðbólguhvati þessa kjarasamnings sé innan við 1%.