16.4.2013
Aðalfundur VM 2013
Aðalfundur VM var haldinn þann 12. apríl s.l. á Grand Hótel í Reykjavík.
Fundurinn var sendur út á internetið og sáu starfsmenn Nýherja um útsendinguna.
Á dagskrá fundarins voru hefðbundin aðalfundarstörf, auk þess sem að fyrir fundinum lágu tillögur stjórnar VM um breytingu á lögum félagsins og reglugerð Styrktar- og sjúkrasjóðs VM. Báðar tillögur stjórnar voru samþykktar.
Breytingarnar vörðuðu 11. gr. í IV kafla laga VM (um Stjórn, fulltrúaráð og nefndir) og var greininni breytt þannig að hér eftir verður formaður VM kosinn til fjögurra ára í senn, en stjórnarmenn til tveggja ára. Með breytingunni er verið að færa kjörtímabil formanns til fyrra horfs, eins og það var í lögum VM við stofnun félagsins. Það fyrirkomulag samrýmdist ekki reglum ASÍ og var lögum félagsins þá breytt, en nú hefur lögum ASÍ verið breytt þ.a. aðildarfélögum er heimilt að hafa kjörtímabilið fjögur ár.
Reglugerð Styrktar- og sjúkrasjóðs VM var breytt þ.a. hér eftir miðast upphæð dagpeninga er 100% af meðaltali þeirra heildarlauna sem iðgjald hefur verið greitt af síðustu 6 mánuði fyrir veikindi eða slys.
Á fundinum voru kynnt áform stjórnar Styrktar- og sjúkrasjóðs VM um hækkun styrkja.
Einnig samþykkti fundurinn tillögu stjórnar félagsins um að félagsjóður leggi Orlofsjóði VM til 160 milljónir króna til uppbyggingar á orlofssvæði félagsins á Laugarvatni. Tillagan er í samræmi við stefnu Fulltrúaráðs VM um áframhaldandi uppbyggingu á orlofsaðstöðu félagsins, með áherslu á að byggja öflugan kjarna með sem bestri heilsársnýtinguna. Í framtíðinni verði svo hægt að skipta á húsum, t.d. við önnur stéttarfélög, víða um landið og vera þannig með fjölbreytt framboð húsa út um land.
Fénu verður varið til að byggja fjögur ný heilsárshús á orlofssvæði VM á Laugarvatni og uppbygging á tjaldsvæði og þjónustuhúsi á landi sem VM hefur leigt af Ungmennafélagi Laugdæla. Í rekstrarreikningi Orlofssjóðs verða þessar nýframkvæmdir færðar sér og Orlofsjóði ætlað að greiða framlagið til baka, gefi rekstrarafkoma hans svigrúm til þess.