29.1.2013
Átak til kynningar á iðnnámi
Verkmenntaskóli Austurlands og sveitarfélagið Fjarðabyggð hafa ákveðið að efna til samvinnuverkefnis sem gefur nemendum í Vinnuskóla Fjarðabyggðar kost á að kynna sér nám á iðnbrautum skólans á komandi sumri. Verkefnið er ætlað nemendum sem lokið hafa 9. bekk grunnskóla. Átta sjávarútvegs- og iðnfyrirtæki í Fjarðabyggð styðja þetta verkefni, þar á meðal Síldarvinnslan.
Verkefnið mun felast í því að nemendur Vinnuskólans sæki nám á verkstæðum skólans í eina viku á fullum launum. Geta þeir valið um nám á fjórum iðnbrautum: Grunnnámi málmiðna, grunnnámi rafiðna, grunnnámi bygginga- og mannvirkjagreina og hársnyrtibraut.
Að lokinni kynningunni ættu nemendur að vera betur í stakk búnir að velja sér nám við hæfi á framhaldsskólastigi en oft hafa þeir haft takmarkaða þekkingu á því námi sem boðið er upp á í iðngreinum.
Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar fagnar þessu kynningarframtaki og bendir á að það sé afar mikilvægt fyrir atvinnulífið í Fjarðabyggð að eiga sífellt kost á vel menntuðum iðnaðarmönnum. Þá sé einnig brýnt að hlúa vel að þeirri stofnun sem annast menntunina.
Frétt fengin hjá Útvegsblaðinu.